Aðeins einn karl í stjórn Frumtaka

27.03.2015

Á aðalfundi Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, sem haldinn var í síðustu viku var kosin ný stjórn sem skipuð er fjórum konum og einum karlmanni.Ný stjórn sem kemur saman til fyrsta fundar þann 8. apríl, er skipuð eftirtöldum:

 

Áslaug G. Jónsdóttir, formaðurAslaugJonsdottir-2
Arnþrúður Jónsdóttir,
Hjörleifur Þórarinsson,
Ragnhildur Reynisdóttir,
Þyri E. Þorsteinsdóttir. 

Varamenn í stjórn eru Lilja Dögg Stefánsdóttir og Vala Dröfn Jóhannsdóttir.

Tvö mál fyrirferðarmest

Í skýrslu formanns, sem flutt var á aðalfundi, kom fram að af fjölmörgum málum sem stjórn og framkvæmdastjóri Frumtaka unnu að á síðara ári voru tvö mál sem segja má að hafi verið fyrirferðarmest á síðasta starfsári. Annars vegar málefni sem varðar aðgengi landsmanna og lækna að nýjum lyfjum og meðferðarúrræðum, og hins vegar nýr og afar jákvæður viðauki í siðareglum lyfjafyrirtækja sem kveður á um að framvegis verði öll samskipti fyrirtækjanna við starfsfólk og stofnanir heilbrigðiskerfisins gerð opinber. Lyfjafyrirtækin höfðu frumkvæði að því að bæta ákvæðinu í siðareglur sínar.

Gagnrýniverð stjórnsýsla

Í aðalfundarræðu formanns stjórnar Frumtaka fyrir starfsárið 2014, Áslaugar G. Jónsdóttur, kom m.a. fram að á síðasta ári hafi verulegrar óánægju verið farið að gæta hjá aðildarfélögum Frumtaka með þá opinberu stjórnsýslu þar sem fjallað er um leyfisskyld lyf, það er þau lyf sem að mati hins opinbera eru dýr og / eða vandmeðfarin.

„Óánægja okkar laut ekki síst að því að fá engin skýr svör, t.d. við þeirri sjálfsögðu spurningu hve dýrt og hve vandmeðfarið lyf þarf að vera til að falla undir þá skilgreiningu að teljast leyfisskylt? Erfitt var að skilja stjórnsýsluna og að útskýra fyrir okkar fyrirtækjum hvernig þessum málum væri í raun fyrirkomið.“

Óháð úttekt

Áslaug sagði að til marks um ástandið hafi veruleg vinna verið lögð í tilraunir til að leysa ágreining við Sjúkratryggingar Íslands og lyfjagreiðslunefnd þar sem m.a. var hvatt til þess að ráðherra skærist í leikinn með beinum hætti til að höggva á hnútinn. Á endanum ákvað stjórn Frumtaka að óska eftir aðstoð óháðs, utanaðkomandi aðila til að framkvæma úttekt á umgjörð leyfisskyldra lyfja á Íslandi. Var Gylfa Ólafssyni heilsuhagfræðingi falið það verkefni að kortleggja kerfið, greina hvernig það var innleitt og lýsa hvernig umsóknum um leyfisskyldu reiði af, sbr. frétt okkar frá því í haust.

Málinu ekki lokið

Í ræðu sinni sagði Áslaug skýrsluna hafa vakið athygli í fjölmiðlum og meðal embættismanna í stjórnsýslunni. Hún sagði mikilvægt að halda málinu vakandi og vinna áfram að nauðsynlegum úrbótum til að bæta aðgengi sjúklinga að nýjum meðferðarúrræðum með innleiðingu á skýru, tímasettu og gagnsæu ferli. Verkefninu ljúki ekki fyrr en búið verði að koma á faglegu ferli við innleiðingu á nýjum leyfisskyldum lyfjum og tryggja fjármögnun þeirra.

Viðauki í siðareglum

Hitt stóra málið sem Áslaug gerði að umtalsefni var nýr kafli í siðareglum lyfjafyrirtækja (Disclosure Code) sem tóku gildi í janúar og aðildarfélög Frumtaka innleiða. Meginmarkmið þessara nýju reglna er að vernda mikilvæg samskipti og varðveita og auka gegnsæi og traust milli lyfjafyrirtækja og heilbrigðiskerfisins. Mikilvægt er að almenningur geti treyst því að samstarf þessarara aðila hafi ekki áhrif á klínískar ákvarðanir og að heilbrigðisstarfsfólk ráðleggi, veiti eða kaupi viðeigandi meðferð og þjónustu sem byggist eingöngu á klínískum niðurstöðum og reynslu.

Áslaug sagði markmiðið að draga úr mögulegri tortryggni almennings á starfsemi lyfjafyrirtækjanna enda hefðu þau haft frumkvæði að innleiðingu reglnanna, ekki opinberir aðilar. Frumtök hafa kynnt þær fyrir forsvarsfólki Læknafélags Íslands og Landspítala, m.a. læknaráði og krabbameinslæknum, og hefur þeim verið tekið vel.

Lyfjastofnun

Af öðrum málum sem stjórn Frumtaka vann að á liðnu starfsári má sem dæmi nefna deilu við Lyfjastofnun vegna opinberrar birtingu stofnunarinnar á veltutengdum upplýsingum. Eftir árangurlausar kvartanir til stofnunarinnar og ósk um að hún hætti birtingu upplýsinganna sendu Frumtök stjórnsýslukæru vegna málsins til velferðarráðuneytisins, sem tók í öllum atriðum undir málstað kæranda og úrskurðaði að Lyfjastofnun hefði ekki heimild til að birta umræddar upplýsingar opinberlega. Hefur Lyfjastofnun brugðist við úrskurði þessum og hætt birtingu þessara upplýsinga.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.