Að gefnu Staksteinatilefni

08.12.2006
Staksteinar Morgunblaðsins spyrja undirritaðan nokkurra spurninga í gær, fimmtudag, sem er bæði ljúft og skylt að svara. Fyrst ber að taka undir með Staksteinum, að læknar hafa mikla hagsmuni af því gagnvart sjúklingum sínum að sýna fram á, að tengsl þeirra og lyfjafyrirtækjanna séu eðlileg fyrirtækin hafa líka hagsmuni af því að tengsl þeirra við lækna séu eðlileg. Því eru í gildi reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja þar sem gert er ráð fyrir gagnsæi í samskiptunum. Undirritaður mætti formanni Læknafélagsins í Kastljósi nýverið og voru báðir sammála um að reglurnar mætti endurskoða, með það að markmiði að tryggja sem frekast er unnt , gagnsæi samskiptanna og traust almennings á þessum tengslum. Til áréttingar þá segir í samkiptareglunum mikilvægt að samstarf læknastéttarinnar og lyfjaiðnaðarins byggi á almennum grunnreglum sem tryggi gott siðferði, réttindi sjúklinga og að virtar séu væntingar samfélagsins, en tryggi um leið sjálfstæði beggja aðila í störfum þeirra. Jafnframt segir að [t]il að sjálfstæði og trúverðugleiki beggja sé tryggður þarf algert gegnsæi. Því verður að gera opinber öll tengsl sem leiða til eða gætu talist leiða til hagsmunaárekstra.


Krafa um fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu

Læknar og lyfjafyrirtæki eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Segja má að í grunninn séu þeir hagsmunir að stuðla sífellt að því að gera gott heilbrigðiskerfi betra. Lyf eru hluti af heilbrigðisþjónustu hverrar þjóðar og lyfjafyrirtækin eru fullgildir þátttakendur í því að tryggja sem besta þjónustu. Það er ástæðulaust að gera samskipti lækna og lyfjafyrirtækja á einhvern hátt tortryggileg. Og sem svar við því, hvernig lyfjafyrirtækin komi sterklega að endur- eða símenntun lækna, þá er átt við þá staðreynd að fyrirtækin styrkja þátttöku lækna á alþjóðlegum læknaráðstefnum, sem verulega fátítt, ef nokkur dæmi eru um, að tekst að fá hingað til lands. Læknis- og lyfjafræðleg þekking er í stöðugri endurnýjun. Umræða og skoðanaskipti fer fyrst fram á alþjóðlegum þingum og fundum, síðar í tímaritsgreinum, bókum og öðrum miðlum. Það er ekki um það að ræða að sérstaklega sé verið að halda fræðslufundi í öðru landi eða með dýrum umbúnaði. Það er einfaldlega ekki boðið upp á fundi sem þessa hér á landi. Þessar ráðstefnur eru almennt alþjóðleg viðurkennd læknaþing, ekki haldin á vegum lyfjafyrirtækjanna, en vissulega oftar en ekki styrkt af hinum ýmsu hagsmunaaðilum líkt og gerist almennt með ráðstefnur og fundi í öðrum atvinnugreinum. Og ekkert athugavert við það. Læknar og heilbrigðisstarfsólk fá í litlum mæli stuðning við ferðir sem þessar af hálfu sinna vinnuveitenda. Lyfjafyrirtækin koma að málum, með það að markmiði að fá tækifæri til þess að kynna nýjungar fyrir starfsfólki heilbrigðiskerfisins. Í samfélaginu er gerð sú eðlilega krafa til heilbrigðisstarfsfólks að það sé vel upplýst um helstu nýjungar og að almenningur hafi aðgang að framúrskarandi heilbrigðisþjónustu. Lyfjafyrirtækin eru þátttakendur í heilbrigðiskerfinu og leggja m.a. á þennan hátt lóð á þær vogarskálar að bæta heilbrigðisþjónustuna.


Að endingu

Lögum samkvæmt mega lyfjafyrirækin ekki kynna vöru sína á neinn hátt gagnvart almenningi. Starfsfólk heilbrigðisstéttanna eru því í raun fánaberar þeirra rannsókna og þróunnar sem unnið er að á vegum fyrirtækjanna. Samskiptin hér á landi eru á svipuðum nótum á á hinum Norðurlöndunum og eru líklega með þeim hætti sem best gerist. Við verðum að bera gæfu til þess að komast frá þeirri umræðu að eitthvað sé óeðlilegt við samskipti á milli lækna og lyfjafyrirtækja, eða að sáð sé því fræi að eitthvað gruggugt sé í pokahorni lyfjafyrirtækja. Fyrir lyfjafyrirtækin skiptir miklu að hafa sem best tengsl við lækna en ekki síður að í samfélaginu ríki sátt og skilningur á mikilvægi þessara tengsla. Ef sú sátt og sá skilningur er ekki til staðar, verða málsaðilar að átta sig á því og fara yfir hvernig bæta má úr. Til þess eru lyfjafyrirtækin tilbúin, til þess að betri og meiri sátt geti skapast um þessi mikilvægu en vandmeðförnu samskipti.

___________________
Jakob Falur Garðarsson

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.