Aðgengi Íslendinga að nýjum lyfjum versnar

14.03.2013

1342025_medical_equipmentHeimir Snær Guðmundsson blaðamaður Morgunblaðsins tók viðtal við Þorbjörn Jónsson, formann Læknafélags Íslands, í gær 13. mars og lýsti Þorbjörn þar yfir áhyggjum af því að Íslendingar væru að dragast aftur úr í upptöku nýrra lyfja.

Aðgengi að lyfjum er eitt baráttumála Frumtaka og hefur mikil vinna verið lögð í það að útskýra hverjir hagsmunir þjóðarinnar eru af góðu lyfjaaðgengi.

Reglulega þarf að taka á ýmsum misskilningi varðandi lyf. Einn misskilningurinn snýr að því að samheitalyf séu verkfæri til að herja á frumlyfjaframleiðendur. Staðreyndin er auðvitað sú að samheitalyf koma á markað þegar einkaleyfi frumlyfsins rennur út, en einkaleyfið er í raun aðferð samfélagsins til þess að greiða fyrir rannsóknar- og þróunarkostnað lyfsins. Samheitalyf eru því mikilvæg heilbrigðiskerfinu, og þar af leiðandi samfélaginu, vegna þess að þau fást gegn lægra verði og eiga þar með að geta skapað svigrúm til frekari fjárfestingar í nýjum lyfjum.

Það virðist hinsvegar ekki vera tilfellið á Íslandi eins og fram kemur í máli Þorbjörns. Þorbjörn nefnir að framlög hins opinbera til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana hafi dregist saman um 20%. Ekki aðeins líði starfsfólk og auðvitað sjúklingar fyrir niðurskurðinn heldur hefur niðurskurðinn haft þær afleiðingar að læknum er uppálagt að velja ódýrustu lyfin fyrst. Þetta sjónarmið er í rétt, svo langt sem það nær, en um leið verður læknirinn einnig að hafa aðgengi að bestu fáanlegu lausnum hverju sinni. Það liggur í hlutarins eðli að virkni nýrri lyfja getur verið önnur og betri en þar fyrir utan þýðir þetta að aðgengi Íslendinga að lyfjum, sérstaklega nýjum lyfjum, fer versnandi.

Frumtök hafa ítrekað bent á að aðgengi að nauðsynlegum lyfjum verði að vera tryggt. Lyf eru hagkvæm svo lengi sem þau eru besti kosturinn og í dag eru lyf besti kosturinn í svo mörgum tilfellum þegar um hina ýmsu sjúkdóma er um að ræða.

Með versnandi aðgengi að nýjum lyfjum skerðast lífsgæði landsmanna, svo ekki sé minnst á þann óbeina kostnað sem velt er út í samfélagið og getur reynst landsmönnum dýrkeyptur.

Heilbrigðisyfirvöld verða að hlusta betur á lækna landsins og ná utan um vanda heilbrigðiskerfisins áður enn grunnstoðirnar brotna alveg niður.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.