Af niðurskurði er skammgóður vermir

11.04.2018

Víðar en á Íslandi eru skiptar skoðanir um hvernig fjármunum er best varið í heilbrigðiskerfinu. Í Danmörku má fylgjast með áhugaverðri rökræðu um málið, en þar togast á sjónarmið um hvort fremur beri að einbeita sér að því að nýta sem best þá lækningakosti sem fyrir eru, eða veita fjármunum í nýjar rannsóknir og þróun á bæði lyfjum og lækningaaðferðum.

Í nýrri grein í danska vefmiðlinum Altinget.dk svarar Sofie Jensen, framkvæmdastjóri LIF (Lægemiddelindustriforeningen) í Danmörku, systursamtökum Frumtaka á Íslandi, skoðunum sem prófessorinn og yfirlæknirinn Anders Perner hefur haldið á lofti. Ólíkt því sem hann hefur haldið fram þá telur Jensen að þróun nýrra lyfja tryggi bæði samkeppni og bestu meðferðarúrræði.

Fullyrðingum Perners um að fjármunum sé sóað í dýrar rannsóknir og þróun og að þeir væru betur nýttir með stuðningi við þekkt meðferðarúrræði fremur en þróun nýrra lyfja svarar Jensen með því að segja að skammgóður vermir sé að pissa í skóinn sinn.

„Þó að ég sé alveg sammála Perner um virði opinberra rannsókna og að mikil tækifæri séu í því fólgin að nýta þekkt úrræði sem allra best, þá eigum við ekki að sætta okkur við að til séu sjúkdómar sem ekki sé hægt að lækna eða aukaverkanir sem fólk verði bara að lifa með,“ segir hún í Altinget.dk og bætir við að komi ekki til rannsóknir í einkageiranum og þróun nýrra lyfja þá blasi stöðnun við.

„Klínískar rannsóknir í opinbera geiranum og í einkageiranum styðja við og bæta við hverja aðra. Það er óráð á stilla þessu upp sem valkostum sem útiloka hvorn annan. Sjúklinganna vegna er hvors tveggja þörf. Án klínískra prófana í einkageiranum kæmi ekki eitt einasta nýtt lyf á markað.“ Ný lyf segir Jensen leika lykilhlutverk í að bæta meðferð við sjúkdómum, ekki síst við krabbameinum.

Jensen vísar til til þess að lífslíkur fólks sem veikst hafi af fjölda krabbameinstegunda hafi aukist verulega síðustu tíu til fimmtán ár með tilkomu nýrra og betri lyfja.

Samkeppni í þróun nýrra lyfja skili einnig þjóðhagslegum ávinningi því eftir því sem ný lyf komi tíðar á markaðinn aukist verðsamkeppni á milli þeirra. Nú líði að jafnaði bara 2,3 ár á milli þess að ný meðferð sé kynnt til sögunnar, en á áttunda áratugnum hafi það verið 10,2 ár. Enn mikilvægara sé svo að með örari þróun lyfja og auknu úrvali sé betur hægt að sníða meðferð að þörfum einstakra sjúklinga, en þeir geti brugðist á ólíkan hátt við lyfjum og meðferðarúrræðum.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.