Af hverju kosta lyf ekki meira?

12.12.2006
Í næstum hverri viku fjalla fjölmiðlar um himinhátt lyfjaverð á Íslandi. Ýmist liggja á bakvið fréttirnar vísindalegar samanburðarrannsóknir fréttahauka á lyfjaverði Norðurlanda eða tilvísanir í háfleyg orð stjórnmálamanna um ógöngur íslenska lyfjamarkaðarins - enda rata slíkir sleggjudómar gjarnan á forsíður og kreppa hnefa almúgans í kröfu sinni um lægra lyfjaverð.
 
Þeim sem málið þekkja er gjarnan skemmt, enda vita þeir af hinum hliðum teningsins. Málið hættir hinsvegar að vera gamansamt þegar lætin af málinu skila sér af þeim þunga á borð alþingis að úr verða ný frumvörp, ný lög, nýjar reglugerðir og aðrar valdbeitingar til miðstýringar. Á þeirri stundu hlýtur að koma að því að framtakssamir hagsmunahópar útskýri lögmál og eðli lyfjamarkaða Evrópulandanna og skýri sérkenni Íslands.

Í fyrsta lagi er gaman að sjá almenning og ríkið haldast í hendur í baráttu fyrir lækkun lyfjaverðs, en hagsmunir þessa hópa falla frekar illa saman og er þá munurinn mestur á milli ríkis og öryrkja. Ef heilbrigðisráðuneytið ákveður að spara og draga úr mótframlagi til lyfjakostnaðar, hækkar hlutur sjúklings - og þar sem hlutur öryrkja er hlutfallslega lægstur í lyfjaverði yrðu öryrkja fyrir hlutfallslega mestri hækkun. Á síðustu 10 árum höfum við séð mörg slík dæmi og er kannski skýrast að nefna þegar Tryggingastofnun ríkisins hætti niðurgreiðslu heilu lyfjaflokkanna, t.d. sýklalyfja og vinsælla bólgueyðandi lyfja - og færði kostnaðinn yfir á sjúklinga.

Lækkað lyfjaverð getur enn fremur leitt til hærri kostnaðar fyrir sjúklinginn. Nærtækasta dæmið er vaskleg framganga heilbrigðisráðuneytis í lækkun kostnaðar þess í lyfjaverði árið 2005. Knúin var fram handstýrð lækkun sem átti samkvæmt formúlunni að stöðva aukningu lyfjaútgjalda ríkisins. Fjölmiðlar fengu almenning á sveif með ríkisvaldinu og allir biðu spenntir eftir betri tíð. Lægra lyfjaverð leiddi hinsvegar til minni söluhagnaðar lyfjaverslana á hverja selda lyfjapakkningu og þar sem svigrúm til afslátta minnkaði, lækkaði afsláttur til viðskiptavina. Lyfjakostnaður heilbrigðisráðuneytis lækkaði, en fyrirsjáanlega og því miður á kostnað neytenda.

Einnig mætti benda á þá undarlegu staðreynd að lyfjaverslanir og sjúklingar hagnast oftar á því að dýrari lyf séu afgreidd í stað ódýrari. Ekki nóg með það, heldur er oft hagkvæmara að versla meira af lyfjum en minna! Þetta kemur til vegna þeirrar reikniformúlu sem Tryggingastofnun hefur smíðað og reglugerðir sett í framkvæmd. Því dýrara sem lyfið er, á meðan lyfið er niðurgreitt og hámarkshlut sjúklings í kostnaði er náð, því meira svigrúm er fyrir lyfsalann að veita afslátt til sjúklings og því greiðir sjúklingur minna. Þetta leiðir til þess að ef sjúkling vantar mánaðarskammt af ákveðnum flokki lyfja en biður um þriggja mánaða skammt, borgar hann í sumum tilfellum minna fyrir þrefaldan skammt en þann einfalda.

Fákeppni á lyfjamarkaði er einn vinkill umræðunnar. Núverandi og fyrrverandi heilbrigðisráðherrar og aðrir ráðamenn hafa bent á þessa staðreynd sem eina af rótum vandans. Það er þó ekki nema í kringum áratugur síðan heilbrigðisráðuneytið ákvað að eyða hömlum á rekstri apóteka og opna fyrir möguleikann á samþjöppun eignarhalds. Á svipuðum tíma var Lyfjaverslun ríkisins einkavædd og seld, enda ekki nokkur grundvöllur fyrir þeim rekstri. Síðan þá hefur þessi frjálsi markaður leitað í það jafnvægi sem komið er á í dag. Öllum fagaðilum er heimilt að opna lyfjabúð eða hefja framleiðslu og/eða innflutning á lyfjum og því er markaðurinn eins frjáls og hugsast getur. Ef markaðurinn rúmar fleiri leikmenn er eflaust von á þeim fyrr en síðar.

Í samanburði við aðrar vörur á Íslandi leiðir maður hugann að því af hverju lyfjaverð á Íslandi sé svona ódýrt! Hvað hefðu fjölmiðlar og neytendur sagt ef öll innflutt lyf og innlend framleiðsla byggð á erlendum hráefnum hefðu hækkað til jafnræðis við gengisbreytingar? Allir gátu sætt sig við eldsneytishækkanirnar! Við skiljum ekki að lyf séu að meðaltali 30% dýrari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, en okkur þykir eðlilegt að borga tvöfalt verð fyrir fjölmargar neyslu- og vísitöluvörur. Ef ég kaupi þriggja mánaða skammt af niðurgreiddu lyfi (E-merkt) án nokkurs afsláttar greiði ég heilar 55 krónur fyrir dagsskammtinn - eða minna en fyrir einn tyggjópakka! Ef ég kaupi dýrt sýklalyf vegna skammvinnra veikinda, án niðurgreiðslu TR og án allra afslátta, greiði ég minna fyrir það en fyrir eina sterka vínflösku. Ef ég kaupi algenga gerð af verkjatöflum greiði ég svipað verð fyrir skammtinn og kostar mig að senda eitt smáskilaboð úr farsímanum!

Á bakvið hvern einasta skammt af lyfi búa tímafrekar og kostnaðarsamar rannsóknir á virki og gæðum, flóknar lyfjaskráningar, tæknilegar framleiðsluaðferðir, öflugt gæðaeftirlit og fagleg smásala - öllum ferlum sinnt af hámenntuðum fagaðilum innan lyfjageirans. Flestir þessara kostnaðarliða eru óháðir magni og vega því margfalt þyngra í heildarkostnaði lyfja á Íslandi en á stærri mörkuðum. Hvað myndi grænmetið kosta á Íslandi ef líffræðingar myndu þróa ræktunaraðferðina, verkfræðingar sjá um framleiðsluna, lögfræðingar sinna skráningarmálum, matvælafræðingar sinna gæðaeftirliti og viðskiptafræðingar sjá um smásöluna!!! Ekki nema eðlilegt að maður spyrji sig af hverju lyf kosta ekki meira... Bjarni Bærings

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.