Afleiðingar falsaðra lyfja og baráttan gegn þeim

14.12.2012

1296420_bacteria_1Richard Bergström, framkvæmdastjóri Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda (EFPIA), bloggaði á dögunum um vandamálin sem felast í auknum lyfjafölsunum. Töluvert hefur verið fjallað um það mál á heimasíðu Frumtaka enda ljóst að vandamálið teygir anga sína alla leið til Íslands.

Til að byrja með er rétt að taka fram að vandamálið má að einhverju leyti reka til þess að refsingar við lyfjafölsunum á heimsvísu eru mjög vægar miðað við hve hrikalegar afleiðingarnar geta verið.

Skipulögð glæpastarfssemi getur þess vegna séð sér hag í að hverfa frá fíkniefnabrotum, þar sem viðurlög eru hörð og horfa þess í stað til falsana, ekki eingöngu á lyfjum heldur einnig til dæmis á matvælum þar sem refsingar við alvarlegum brotum eru vægari.

Bergström nefnir að vissulega séu falsanir vandamál sem hefur verið við lýði í margar aldir, vandamál sem smjúgi inn í nánast alla geira atvinnulífsins. Þekktustu vandamálin í dag eru sennilega flestum þeim sem ferðast um heiminn kunn. Falsaður lúxusvarningur líkt og úr, töskur, sólgleraugu og fatnaður er dæmigert viðfangsefni falsara.

En með lyfjafalsanir gegnir öðru máli. Þegar lúxusvarningur er falsaður er helsta áhyggjuefnið það tekjutap sem eigendur vörumerkjanna verða fyrir. Þegar lyf eru fölsuð verða ekki einungis lyfjaframleiðendur fyrir tapi heldur verður heilsu sjúklinga ógnað sem er grafalvarlegt. Það skýtur því skökku við að ekki sé tekið nægilega hart á svo alvarlegum málum.

25 sinnum ábatasamara að falsa lyf
Á hverju ári valda fölsuð lyf þúsundum einstaklinga heilsuskaða eða jafnvel dauða. Afleiðingar lyfjafölsunar eru ekki einskorðaðar við þriðja heiminn heldur er um alheimsvandamál að ræða sem fer vaxandi.

Að sögn Bergström er talið að um 10% lyfja á heimsvísu séu fölsuð. Í evrum nemur upphæðin um 52 milljörðum sem þýðir að það er um það bil 25 sinnum ábatasamara að falsa lyf en að framleiða fíkniefni.

Þetta er önnur helsta skýringin á því að skipulögð glæpastarfssemi hefur litið til lyfjafölsunar. Tæknin hjálpar einnig með tilkomu veraldarvefsins. Samkvæmt European Alliance of Access to Safe Medicines (EAASM) – Evrópusamtaka um aðgang að öruggum lyfjum – er áætlað að 62% lyfja sem seld eru á veraldarvefnum séu fölsuð. Það er verulega hátt hlutfall sem skýrist að töluverðu leyti að því að 8 af hverjum 10 svokölluðum vefapótekum eru ekki til, heldur eru einungis framhlið blekkingar.

Bæði alþjóðastofnanir og ríki berjast eftir fremsta megni við þessa vá. Evrópuráðið hefur stigið mikilvæg skref með MEDICRIME ráðstefnunni þar sem 21 ríki hafa skuldbundið sig til þess að herða á viðurlögum við lyfjafölsunum og fara í aðgerðir til að berjast gegni aukningu falsananna. Þá hefur Interpol komið á laggirnar sérstakri áætlun, Pangea V, sem ætlað er að ráðast að rótum vandans.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) vinnur einnig að því að styrkja regluverk þannig að auðveldara sé að tryggja aðgang að öruggum lyfjum á heimsvísu.

Eftir sem áður þarf að gera meira til að berjast gegn því að sjúklingar taki fölsuð lyf sem hafa öfuga virkni en þeir búast við, lyf sem gera sjúklinga enn veikari í stað þess að vinna á veikindunum sem þeir glíma við. Bergström segir að lyfjageirinn vilji finna langtímalausn á þessum vanda.

Ein leið sem lyfjafyrirtækin eru að þróa er staðfestingarkerfi á lyfjum sem tekur til allrar framboðskeðju lyfjanna og allra hagaðila. Þannig gefst gott tækifæri til að útrýma fölsuðum lyfjum úr viðurkenndu framboði lyfjanna.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.