Ákall um ný og betri krabbameinslyf

24.04.2017

Nærri þrjú þúsund manns hafa nú skrifað undir ákall til stjórnvalda um að tryggja krabbameinssjúkum aðgang að nýjustu og bestu lyfjum.

Fjallað var um undirskriftarsöfnunina í fréttatíma Stöðvar 2 fyrir skömmu og upphafsmaður hennar, Haraldur Sigfús Magnússon tekinn tali. Hann er á níræðisaldri og segist hafa glímt við eftirköst krabbameinslyfja sem hér eru notuð síðan hann sigraðist á sjúkdómnum fyrir nokkrum árum.

Haraldur segir að í nágrannalöndunum séu notuð ný krabbameinslyf sem skaði síður líkamann, en hafi ekki verið tekin í notkun hér.

Tölur sem Frumtök hafa áður birt og vakið athygli á staðfesta að Ísland er eftirbátur Norðurlanda þegar kemur að því að taka upp ný krabbameinslyf, líkt og fjallað er um hér.

„Ríkisstjórnin samþykkti í febrúar að tryggja fjármuni til innleiðingar á nýjum lyfjum, en það hefur þó enn ekki komið til framkvæmda, því enn eru ekki teknar til afgreiðslu umsóknir hjá lyfjagreiðslunefnd, sökum fjárskorts,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Samtökin taki heilshugar undir ákall um aðgerðir sem tryggi landsmönnum aðgang að nýjustu og bestu lyfjum.

Haraldur segir í frétt Stöðvar 2 að sér hafi fyrir páska dottið í hug að deila söfnuninni á Facebook og þá hafi skrifað undir um 1.500 manns. Hægt er að skrifa undir áskorunina hér á vef Change.org.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.