Ákall um heildstæða og skýra stefnu í lyfjamálum

20.06.2014

Hagkvæmni er gætt í lyfjainnkaupum á Landspítalanum, segir forstjóri spítalans, Páll Matthíasson. Hann var í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í gær, 19. júní, þar sem málefni spítalans voru rædd á víðum grunni. Meðal annars bar forgangsröðun vegna kostnaðarsamra lyfjameðferða á góma, sem Páll segir réttilega vera erfitt viðfangsefni en verði engu að síður að ræða og marka stefnu um. Dæmi eru um að meðferð eins einstaklings kosti svipað og rekstur einnar deildar á spítalanum í eitt ár og því brýnt að heilbrigðisyfirvöld marki stefnu um hvar eigi að draga mörkin.

 

„Hvar á að draga mörkin, eða á að draga mörkin,“ spyr Páll. „Þetta er ekki eitthvað sem Landspítalinn getur einn ákveðið eða Sjúkratryggingar. Það þarf þarna aðkomu stjórnvalda og almennings, umræðu sem er einnig byggð á siðfræðilegum grunni. Hvernig á að forgangsraða.“

Góður árangur á LSH sem aðrir geta lært af 

Í viðtalinu í Viðskiptablaðinu segir Páll það eilífa áskorun að tryggja aðgengi sjúklinga að bestu mögulegu lyfjum jafnframt því að hemja lyfjakostnað. Fram kemur að spítalinn hafi náð mjög góðum árangri í kostnaðaraðhaldi á dýrum og sérhæðum lyfjum við t.d. krabbameini, HIV og gigtarsjúkdómum. „Við tökum aðeins inn ný lyf að mjög vel athuguðu máli þar sem settar hafa verið reglur um hverjir eigi að nota lyfin og svo framvegis,“ segir Pál og bendir á að önnur lönd geti lært af Íslandi í þessum efnum.

Yfirvöld þurfa að marka stefnuna 

Hins vegar bendir Páll á að spítalinn standi í vaxandi mæli frammi fyrir dýrum lyfjameðferðum við sjaldgæfum arfgengum sjúkdómum sem heilbrigðisyfirvöld þurfi að marka stefnu um hvernig eigi að taka á. „Auðvitað þarf að ræða almennt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, en vandamálið um forgangsröðun kemur sérlega skýrt fram þegar kemur að ofurdýrri meðferð,“ segir Páll og bendir á að til séu lyf sem kosti yfir 100 milljónir á ári fyrir meðhöndlun á einum einstaklingi og spítalinn hafi notað slík lyf enda hafi mannslíf verið í húfi. 

Óumflýjanlegt viðfangsefni 

„Þegar ekki er búið að taka umræðuna og móta heildstæða stefnu, þá er afar erfitt að segja nei, ef ljóst er að viðkomandi lyf bjargar mannslífi – en það þarf að ræða þessi mál. Svo dæmi sé tekið; ef lyfjameðferð eins einstaklings kostar meira en að reka heilaskurðlækningar á Landspítala á ári, eigum við þá að leggja þá þjónustu niður á móti? Ef ekki, þá þarf að koma inn meira fjármagn, því það er ekki endalaust hægt að hagræða upp í aukinn kostnað. Það þarf að hugsa um forgangsröðun og þar getum við tekið okkar nágrannalönd til fyrirmyndar á ýmsan hátt. Og forgangsröðunin þarf að byggja á þremur hlutum. Í fyrsta lagi á kostnaði. Í öðru lagi þarf forgangsröðun að byggja á faglegum rökum, að þau séu sterk. Og í þriðja lagi á siðferðilegum þáttum. Hvaða grunngildi viljum við í samfélaginu? Ef við ætlum að hafna meðferð, á hvaða grunni á það að vera?“ spyr Páll.

 

Frumtök taka undir sjónarmið forstjóra Landspítalans og fagna þeirri greinargóðu heildarmynd sem hann dregur upp í viðtalinu, ekki síst þeirri brýningu að stjórnvöld marki skýra stefnu í lyfjamálum og tryggi fjármuni til fjárfestingar í nýjum og nauðsynlegum lyfjum.

Nánari upplýsingar 

 Pall-Matt-VB19jun14

(Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Viðskiptablaðsins, vb.is)

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.