Árangursrík útgjöld til heilbrigðismála

22.08.2014

 

rannsoknirÍ samfélagsumræðunni víða um heim velta fréttaskýrendur því fyrir sér með hvaða fyrirkomulagi árangursríkast sé að styðja við nýsköpun í heilbrigðismálum og tryggja um leið að heilbrigðiskerfið hafi efni á þeim afurðum sem líta dagsins ljós. Sumir telja t.d. að hið opinbera (skattgreiðendur) hafi ekki lengur ráð á að verja fé til lyfjaþróunar (með framlögum úr opinberum sjóðum) því nýju lyfin séu of dýr fyrir heilbrigðiskerfið.

 

Til að skýra þetta nánar má segja að nýsköpun sé almennt drifin áfram á styrkjum frá opinberum aðilum og sjóðum. Væru þeir lagðir niður eða framlög lækkuð umtalsvert yrði nýsköpun væntanlega nær eingöngu möguleg með stuðningi fjárfesta. Það fyrirkomulag telja margir að myndi hækka verð vegna ávöxtunarkröfu fjárfestanna, þar sem þróunarkostnaður vegna vörunnar yrði hluti vöruverðs. Og það telja ýmsir að myndi leiða til þess að fjársvelt opinbert heilbrigðiskerfi myndi dragast aftur úr þar sem það hefði ekki efni á að kaupa ýmsar nýjungar, sem t.d. einkarekið heilbrigðiskerfi hefði efni á, þar sem það innheimti kostnaðinn hjá viðskiptavinum sínum, sjúklingum sem hefðu ráð á þeim kostnaði.

Ótvíræður árangur af nýsköpun

Richard Torbett, hagfræðingur hjá EFPIA, segir í grein sem birtist á vef samtakanna 7. ágúst, að reynslan sýni að árangur af nýsköpun sem drifinn er af framlögum opinberra sjóða sé ótvíræður. Hann bendir t.d. á að þróunarkostnaður vegna nýrra lyfja, allt til þess er það fer á markað, hafi ekkert lækkað í áranna rás. Ef eitthvað er hafi kostnaðurinn margfaldast undanfarna áratugi. Á sama tíma hafi markaðurinn sem einkadrifin fyrrtæki geti innheimt þróunarkostnað sinn hjá minnkað. „Það er eðlileg afleiðing af sífellt sérhæfðari og persónumiðaðri meðferð sem sjúklingar fá og sú þróun mun halda áfram. Og þá má spyrja sig - hvort sú staðreynd, að dýrara er að þróa lyf fyrir fámenna hópa, muni endilega hafa í för með sér að heilbrigðiskerfin muni ekki hafa ráð á að kaupa þessi sérhæfðu lyf? Mitt svar er að svo þurfi ekki endilega að vera,“ segir Torbett..

Skynsamleg notkun er lykilatriði

Þegar kemur að lyfjum, þá er „skynsamleg notkun“ lykilatriði þegar kemur að gæðum opinbera heilbrigðiskerfisins. Þegar hægt er að meðhöndla sjúkling með fullnægjandi hætti með notkun eldri og þaulreyndra lyfja ætti að gera það í stað þess að nota nýjustu og dýrustu lyfin. En í þeim tilvikum, þar sem nauðsynlegt er að beita nýjustu meðferðarúrræðunum, þá ætti að veita aðgang að þeim gegn sanngjarnri greiðslu. Verðlagningin þarf þá að endurspegla bæði virðissaukann af meðferðarúrræðinu (t.d. að sjúklingurinn kemst aftur og fyrr af fullum þunga út á vinnumarkaðinn og líkur eru á að hann þurfi minna á heilbrigðiskerfinu að halda á næstu árum en ella væri) og fjölda þeirra sjúklinga sem munu þurfa á sams konar meðferð að halda (stærð markaðsins), þar sem verðið lækkaði eftir því sem sjúklingarnir væru fleiri.

 

Með réttu jafnvægi þessara tveggja lykilþátta er að mati Torbett hægt að tryggja að allir hafi hag af. Opinber gögn um árangur heilbrigðiskerfa sýna að þar sem best hefur tekist að stýra lyfjanorkun með þessum hætti hefur best tekist að halda aftur af lyfjakostnaði og auka að sama skapi stuðning við nýsköpun.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.