Auka þarf fjárveitingar til lyfjakaupa

20.08.2015

kristjan thor RUVOpinberlega hefur nú legið fyrir um margra mánaða skeið að fjárveitingar til lyfjamála í fjárlögum ársins í ár duga í ekki fyrir þeirri notkun sem þó hafði verið gert ráð fyrir í áætlunum ársins. Áður hefur komið fram að engin ný sjúkrahúslyf hafi verið samþykkt hjá Lyfjagreiðslunefnd á árinu og við blasi að svo verði allt þetta ár nema forsendur breytist. Í fjölmiðlum undanfarnar vikur hefur mikið verið fjallað um aðgengi sjúklinga með lifrarbólgu-c að þeirri meðferð sem læknar vilja veita en hafa ekki getað veitt sökum synjana um fjármögnun lyfjameðferðar. Aðspurður í viðtali á RÚV vegna þessa sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, ljóst að auka þurfi fjárveitingu til lyfjakaupa og að við þurfum að taka betur á þessum þætti mála.

Með þessari yfirlýsingu heilbrigðisráðherra er á skýran hátt brugðist við ákalli úr læknastétt um að bregðast verði við. Sigurður Ólafsson meltingar- og lifrarlæknir og settur yfirlæknir meltingarlækninga Landspítala, setti fram hvassa gagnrýni á stöðu mála í Læknablaðinu nýverið og spurði: “Hvernig getur þetta gerst hér á Íslandi, hjá þjóð sem flokkast meðal auðugri þjóða í heiminum? […] Ég hygg að allir sem að heilbrigðisþjónustunni koma, hvort sem það er í heilbrigðisráðuneytinu, innan Sjúkratrygginga Íslands eða á sjúkrastofnunum, hafi að leiðarljósi að Íslendingar geti notið bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Orsakir þess að svona er komið eru vafalítið margvíslegar og kerfislægar og snerta meðal annars hvernig staðið er að ákvarðanatöku um upptöku nýrra lyfja og fjárveitingar til málaflokksins.”

Í viðtalinu á RÚV sagði heilbrigðisráðherra unnið að því að veita þessa lyfjameðferð hér á landi. „Við höfum núna í nokkra mánuði verið að vinna að því að geta fjármagnað lyfjagjöf til mun stærri hóps, en á þessari stundu get ég ekki upplýst hvað þar er á ferðinni eða hvenær við fáum niðurstöðu úr því.“

Ljóst er að vilji ráðherra er til staðar og að skilningur ríkir á því að auka verði fjárveitingar til málaflokksins. Nú er að sjá hver framvindan verður.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.