Baráttan við vindmyllurnar

29.11.2010
Meðalverð lyfja á Íslandi er sambærilegt verði á NorðurlöndunumAð gefnu tilefni árétta Frumtök að lyfjaverð á Íslandi er síður en svo hátt en umræða um lyfjaverð er oft á þeim nótum að svo sé. Allar ályktanir sem eru afleiðingar slíkrar umræðu standast því ekki neina skoðun.

Þann 30. september síðastliðinn birti lyfjagreiðslunefnd könnun þar sem kemur fram að meðalverð 40 veltuhæstu lyfjanna (miðað við þau lyf sem voru veltuhæst í síðustu lyfjakönnun) er lægra á Íslandi en meðaltal á Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Undanfarið hefur Noregur verið dreginn út sem sérstakt viðmiðunarland í lyfjaverði en staðreyndin er sú að lyfjakarfan í Noregi, miðað við meðalverð 40 veltuhæstu lyfjanna, er ekki nema 2,17% lægri í Noregi miðað við síðustu könnun. Munurinn er ekki meiri en þetta þrátt fyrir að Ísland sé örmarkaður, með sérmerktar umbúðir, birgðahald og allt það hagræði sem af því hlýst að hafa lyfjafyrirtæki með sérmenntuðu starfsfólki starfandi á landinu. Þá ber að hafa í huga að sterkara gengi krónunnar dregur úr fjárfestingu vegna lyfja.

Í fyrri frétt Frumtaka um lyfjakönnun Lyfjagreiðslunefndar kom fram að lyf, að teknu tilliti til virðisauka, eru ódýrust í Finnlandi en svo raðast löndin eftir því sem þau eru dýrari í eftirfarandi röð, Noregur, Ísland, Svíþjóð og Danmörk.

Með tilliti til smásölu er lyfjakarfan ódýrust í Noregi, svo Svíþjóð, Íslandi, Finnlandi og Danmörk rekur aftur lestina þar sem lyf eru einnig dýrust í smásölu.

Umræða um hátt lyfjaverð á Íslandi er afar þrautseig þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að hún eigi við nokkur rök að styðjast, í það minnsta hvað frumlyf varðar. Ef verðkarfan er skoðuð sést að smásöluverð 36 þeirra lyfja fást í öllum samanburðarlöndunum, er í Finnlandi kr. 867.545, Danmörku kr. 904.050, Íslandi kr. 798.990, Noregi kr. 766.870, og Svíþjóð kr. 788.563. Meðaltal körfunnar í Finnlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð er því kr. 814.618 samanborið við kr. 798.990 á Íslandi.

Þá ber ennfremur að minna á það að lyfjaverð er ákveðið af yfirvöldum. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar 213/2005 um Lyfjagreiðslunefnd segir að til að ná markmiðum lyfjalaga um að halda lyfjakostnaði í lágmarki skal lyfjagreiðslunefnd sjá til þess að lyfjaverð hér á landi sé að jafnaði sambærilegt við verð í viðmiðunarlöndum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð. Umræða um hátt lyfjaverð á Íslandi er því að mörgu leyti sambærileg baráttu við vindmyllur.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.