Björgvin Guðmundsson tekur undir með Frumtökum

06.06.2014

Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur, sem lengi hefur starfað að bættum hag eldri borgara og m.a. setið í kjarnanefndum á vegum hagsmunasamtaka þeirra, ritaði grein í Morgunblaðið 2. júní. Björgvin telur brýnt að lækka verð á lyfjum og hvetur til þess að það verði gert með afnámi virðisaukaskatts á lyf enda skattar á lyf hér á landi með þeim hæstu í Evrópu. Í grein Björgvins gætir þó nokkurs misskilnings þegar hann ber saman lyfjaverð hér á land og Norðurlöndunum.

 

Verð almennra lyfja á Íslandi er hið sama og að meðaltali á Norðurlöndum eins og fram kemur í reglulegum verðkönnunum lyfjagreiðslunefndar. Að auki er verð sjúkrahúslyfja á Íslandi á pari við lægsta verð á Norðurlöndum. Ástæðan er sú að íslensk stjórnvöld ákveða í raun hámarksverð á lyfjum til notkunar á sjúkrahúsum með því að ákveða að hæsta leyfilega verðið skuli vera hið sama og lægst gerist á hinum Norðurlöndunum.

 

Björgvin bendir réttilega á að í Svíþjóð og Bretlandi sé enginn virðisaukaskattur lagður á lyf, þar sem stjórnvöld líta „svo á að lyf séu það mikilvæg að ríkið eigi ekki að skattleggja þau. Í Finnlandi er virðisaukaskattur á lyfjum 10%. Í Frakklandi er skatturinn 2,5% og í öllum öðrum löndum Evrópu er virðisaukaskattur miklu lægri en hér. Hér er engu líkara en stjórnvöld telji lyf vera lúxusvöru, sem eigi að skattleggja til hins ýtrasta!“ Undir þetta taka Frumtök eins og sjá má hér.

 

Grundvallar misskilnings gætir hjá Björgvini sem segir að miða eigi við það í dag að lyf hér á landi séu ekki meira en 15% dýrari en í Danmörku. Allt frá árinu 2006 hefur lyfjaverð á Íslandi verið það sama og að meðaltali á Norðurlöndunum auk þess sem verð á dýrustu lyfjunum hér er hið sama og ódýrast gerist á Norðurlöndum.

Fjöldi lyfjanúmera segir lítið

Hvað varðar fjölda lyfjavörunúmera, sem er minni hér á landi en erlendis, þá er fjöldinn alls ekki áhyggjuefni eins og Björgvin telur enda endurspeglar fjöldi lyfjavörunúmera  fyrst og fremst meira úrval í stærð pakkninga, það er, fjölda taflna í hverri pakkningu.

 

Munur á fjölda lyfjanúmera hér og erlendis orsakast fyrst og fremst af mismunandi stærð markaða. Eftir því sem markaðir eru stærri skapast meiri möguleikar hjá framleiðendum til að mæta mismunandi þörfum einstakra lyfjanotenda, svo sem um fjölda taflna í hverri pakkingu. Þess vegna er algengt að í fjölmennum ríkjum heims sé boðið uppá lyfjapakkingar með mismunandi fjölda taflna í hveri pakkningu, pakkningu með 10 töflum, 20, 30 og svo framvegis. Smæð íslenska markaðarins og þar með hár markaðskostnaður gerir að verkum að ekki er unnt að bjóða uppá sama úrval og gengur og gerist í milljónasamfélögum. Ástæðan skýrist einnig af háum skráningargjöldum og ýmsum öðrum gjöldum sem íslensk stjórnvöld leggja á lyfjaframleiðendur og virka hamlandi á lyfjamarkaðinn hér á landi.

Áhrif breytinga á greiðsluþátttökukerfinu

 Varðandi áhrif breytinga stjórnvalda á greiðsluþátttökukerfinu, sem Björgvin gerir einnig að umtalsefni, þá telja Frumtök, eins og Ríkisendurskoðun, að skilgreina þurfi hvernig meta eigi áhrif og árangur breytinganna enda vitað að þær geta haft aukaáhrif og valdið auknum kostnaði annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Frumtök hafa m.a bent á þá staðreynd að breytingar á greiðsluþátttökukerfinu höfðu alvarlegar afleiðingar, m.a. á lyfjagjöf astma- og ofnæmissjúklinga. Á það bentu sérfræðilæknar, m.a. Unnur Steina Björnsdóttir ofnæmislæknir, sem gerði rannsókn á áhrifum breytinganna. Niðurstaða hennar leiddi til þess að velferðarráðuneytið dró þá ákveðnu breytingu til baka. Einnig má benda á rannsókn Sveinbjarnar Gizurarsonar, prófessors í lyfjafræði, sem einnig hefur bent á alvarleg áhrif breytinganna.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.