Blóðfitulækkandi lyf geta dregið úr dauðsföllum vegna háþrýstingshjartasjúkdóma

10.11.2010
Í Fréttablaðinu 9. nóvember var birt frétt þess efnis fjöldi að dauðsfalla vegna háþrýstingshjartasjúkdóma hefði fimmfaldast á síðasta ári miðað við árið á undan.

Skýringa hefur verið leitað hjá læknum á þessu en þeir telja að tilvikin séu of fá til að teljast marktæk. Á tímabilinu frá 1996 til 2009 létust að meðaltali 10 manns á hverju ári vegna sjúkdómsins. Í fyrra létust hinsvegar 25 manns.

Sama dag birtist frétt á heimasíðu BBC þess efnis að ný rannsókn bendi til þess að hægt sé að draga úr áföllum af völdum hjartasjúkdóma með aukinni notkun blóðfitulækkandi lyfja, þ.e. svokallaðra statínlyfja. Í frétt BBC segir að samkvæmt rannsókninni sé hægt að draga úr áföllum um allt að 13%. Statínlyf geta meðal annars haft áhrif til lækkunar á LDL kólesteróli sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið vegna transfitusýra.

Í ljósi þess að greiðsluþátttöku hjarta- og æðasjúkdómalyfja, sem er stærsti lyfjaflokkurinn, hefur verið breytt er nauðsynlegt að fylgjast nákvæmlega með framvindu þessara mála.

Í upplýsingum Lyfjastofnunar kemur fram að sala í stærsta lyfjaflokknum, hjarta- og æðasjúkdómalyfjum, hafi dregist saman um 9,5% reiknað í dagskömmtum fyrstu sex mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra.

 

Frumtök hafa áður lýst yfir áhyggjum af því að sala á hjarta- og æðasjúkdómalyfjum hafi minnkað verulega. Frétt þess efnis var birt á vefsíðu Frumtaka 7. júní en greiðsluþátttöku þessara lyfja var breytt 1. mars 2009. Telja má líklegt að salan hafi minnkað vegna breyttrar greiðsluþátttöku.

Frumtök hafa ennfremur minnst á að eins og stendur sé mjög erfitt að meta áhrif breytinga í heilbrigðiskerfinu þar sem skráningu sé ábótavant. Það er mikið áhyggjuefni að sjá aukningu dauðsfalla vegna hjartasjúkdóma og aðeins hægt að vona að um afbrigði sé að ræða.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.