Breytingar á greiðsluþátttöku lyfja

02.12.2010
Fréttastofa RÚV birti þann 16. nóvember frétt þess efnis að umtalsverðar breytingar væru í bígerð á greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga vegna lyfja.

Vinnuhópur um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga skilaði skýrslu sinni þann 3. nóvember. Í ljósi síendurtekinna óska um að ákvarðanir í heilbrigðiskerfi landsins séu teknar á samráðsgrundvelli með þeim sem eigi aðkomu að heilbrigðiskerfinu var þess óskað af hálfu Frumtaka að fá aðkomu að vinnuhópnum.

Þó þeirri ósk hafi verið synjað voru hinsvegar gefin fyrirheit um aðkomu Frumtaka og annarra sem breytingarnar varða á seinni stigum. Staðið var við þau fyrirheit og fyrsta skrefið í skynsamlegri niðurstöðu í sátt við þá sem aðild eiga að breytingunum því stigið.

Kerfið sem óskað er umsagnar og athugasemda um á þessu stigi byggir á danskri fyrirmynd og samræmist það þeirri stefnu sem aðildarfyrirtæki Frumtaka telja eðlilegasta. Með nýju kerfi yrði greiðsluþátttaka tengd einstaklingi í stað lyfs og yrði um mikinn sanngirnissigur að ræða ef sú yrði raunin. Jöfnuður í kerfinu yrði meiri þar sem sjúklingum yrði ekki mismunað á grundvelli sjúkdóma.

Í umsögn sinni til vinnuhópsins hvetja Frumtök til þess að hugað verði að tengingu við félagslega kerfið og tekjulágum einstaklingum þannig gert kleift að fá lyf í nýja kerfinu. Frumtök telja það þjóðhagslega hagkvæmt að allir fái viðeigandi meðferð, burtséð frá fjárhagsstyrk.

Það er eindregin skoðun Frumtaka að í umhverfi niðurskurðar beri að vernda gæði heilbrigðisþjónustunnar með öllum tiltækum ráðum. Til að vernda megi gæðin er nauðsynlegt að fara út í hagkvæmnisútreikninga og heilsuhagfræðilegar skráningar svo taka megi skynsamlegar ákvarðanir. Lítið hefur verið um slíka nálgun og vona Frumtök að það standi til að taka á þessum vanda.

Frumtök árétta mikilvægi þess að samráð sé haft við hagsmunaaðila í heilbrigðisgeiranum þegar breytingar eru fyrirhugaðar. Ósk vinnuhópsins um samráð er því vel tekið og lýsa Frumtök yfir stuðningi við þau meginmarkmið sem þar koma fram.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.