Danir stórauka áherslu á lífvísindi

12.03.2018

Nýrri aðgerðaáætlun dönsku ríkisstjórnarinnar er ætlað að stórauka veg lífvísinda þar í landi. Danmörk á að vera leiðandi í rannsóknum og starfsemi á sviði lífvísinda í Evrópu.

Lögð hefur verið fram áætlun með 36 aðskildum áhersluatriðum sem ætlað er að fækka þröskuldum og fjölga tækifærum í danska líftæknigeiranum á öllum sviðum starfseminnar, allt frá rannsóknum til markaðssetningar, leyfisveitinga og sölu á alþjóðlegum útflutningsmörkuðum.

Meðal þess sem lagt er til eru endurgreiðslur á 110 prósentum kostnaðar vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun og niðurfelling gjalda vegna klínískra prófana. Tillögunum 36 er ætlað að styrkja enn frekar stöðu Danmerkur í líftæknigeira, en landið stendur þegar framarlega í þeim efnum. Verðmæti lyfjaútflutnings Dana nam árið 2016 sem svarar yfir 1.700 milljörðum íslenskra króna, eða 17 prósentum af heildarútflutningi landsins.

„Við ættum að líta til Danmerkur sem fyrirmyndar í þessum efnum, en óvíða í heiminum er að finna viðlíka dæmi um vöxt og viðgang verðmæts þekkingariðnaðar,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Hér á landi hefur byggst upp verðmæt þekking á sviði lyfja og líftækni og ómæld tækifæri því samfara að styðja við áframhaldandi uppbyggingu á þeim sviðum. Áður hefur verið fjallað um það á vettvangi Frumtaka að í lyfjageira sé að finna þau fyrirtæki sem verji langhæstu hlutfalli af veltu sinni til rannsókna og þróunar. (Svo sem HÉR og HÉR.)

Meðal annars er fjallað um áherslur Dana í sænska vefritinu LIFe-time.se, en áhugasamir geta kynnt sér fyrirætlanir dönsku ríkisstjórnarinnar beint í upplýsingablaði ríkisstjórnarinnar um verkefnið og í aðgerðaáætluninni sjálfri.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.