Dregið hefur úr lyfjakostnaði

28.02.2017

Lyfjakostnaður sem hlutfall af heilbrigðiskostnaði hins opinbera hefur lækkað undanfarin ár. Samkvæmt fjárlögum 2017 stefnir í að hlutfallið verði 7,4 prósent og hefur þá ekki verið lægra í áratug.

„Hún skýtur því dálítið skökku við ábending Ríkisendurskoðunar frá því fyrir helgi um mikilvægi þess að draga úr lyfjakostnaði hins opinbera,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, en samtökin hafa ítrekað bent á hvernig skorið hefur verið við nögl í áætlunum ríkisins í lyfjamálum, svo sem vegna innleiðingar nýrra lyfja.

Brugðist hefur verið við ábendingum Frumtaka og hafa sett af stað starf á vegum fjármálaráðuneytis- og velferðarráðuneytis sem ætlað er að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári.

Í frétt Ríkisendurskoðunar kemur þó fram að ekki séu ítrekaðar ábendingar til velferðarráðuneytis frá árinu 2014 um leiðir til að stemma stigu við hækkandi lyfjakostnaði á Íslandi, en velferðarráðuneytið hvatt til að beita sér fyrir þátttöku Landspítalans í fjölþjóðlegu samstarfi með það fyrir augum að draga úr kostnaði vegna lyfja.

„Vera kann að ábendingar Ríkisendurskoðunar snúi að verklagi opinberra stofnana við innkaup, en tölurnar sýna hins vegar að hlutfallslegur kostnaður af lyfjakaupum hefur dregist saman,“ segir Jakob Falur. Þannig er rúmum milljarði króna minna varið til lyfjakaupa á fjárlögum 2017 en gert var á árinu 2016.

Í samantekt Frumtaka á tölulegum upplýsingum um lyfjamál kemur fram að lyfjakostnaður sem hlutfall af heilbrigðiskostnaði hefur lækkað mikið undanfarin ár, líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan.  

Fram kemur að hluta lækkunarinnar megi skýra með sterkari krónu, en um leið er ljóst að fjárframlög ríkisins til lyfjamála hafa verið verulega vanáætluð, líkt og endurspeglast í aðgerðum fjármála- og heilbrigðisráðherra til að tryggja málaflokknum aukið fjármagn. Óumdeilt er að komi ekki til aukafjárveitingar þá sé ekkert svigrúm til að innleiða hér ný lyf á þessu ári, en óskum um skráningu nýrra lyfja á árinu hefur þegar verið hafnað. Það þýðir að hér verður ekki boðið upp á sömu úrræði við meðferð alvarlegra sjúkdóma og standa öðrum Norðurlandabúum til boða.

Um leið skal haldið til haga að samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því 17. þessa mánaðar sýnir vilja til þess að bæta úr því sem aflaga hefur farið við áætlanagerðina, þó að enn liggi ekki fyrir með hvaða hætti staðið verður að málum.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.