Efla þarf rannsóknir og þróun

20.02.2018

Athygli vakti á nýafstöðnu Viðskiptaþingi að þrír af fjórum nemendum sem hlutu námsstyrki úr Menntasjóði Viðskiptaráðs stunda nám í líftækni í einhverri mynd. Hér á landi hefur um árabil verið horft til tækifæra samfara uppbygginu þekkingarklasa á sviði lyfja og líftækni. „Vonandi er úthlutun styrkja Menntasjóðsins til marks um að enn frekari vaxtar sé að vænta á þessu sviði,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

Vöxturinn í geiranum var eina örastur á árunum um og upp úr aldamótum, en samkvæmt tölum Hagstofunnar tvöfaldaðist útflutningur lyfjavara frá Íslandi milli 1999 og 2000. Útflutningsverðmætið fór úr rúmum 500 milljónum króna í tæpa 1,3 milljarða. Það var svo komið í rétt tæpa níu milljarða árið 2004 eftir öran vöxt. Mest voru umsvifin svo 2012, þegar útflutningsverðmætið var tæpir 15,3 milljarðar króna. Nýjustu tölur Hagsofunnar ná bara til 2016, en þá nam útflutningsverðmæti lyfjavara frá Íslandi rétt tæpum 9,9 milljörðum króna.

Mikil tækifæri eru fólgin í áframhaldandi uppbyggingu þekkingariðnaðar í lyfjageira hér á landi, að sögn Jakobs Fals, en þegar kemur að framlögum til rannsókna og þróunar (R&D) skera lyfjaframleiðendur sig úr að því leyti að engum geira öðrum skila fyrirtæki jafnháu hlutfalli af veltu í rannsóknir og þróun. „Tölurnar sýna okkur að rúmum 16 prósent af veltu lyfja- og líftæknifyrirtækja er veitt til rannsókna og þróunar,“ segir Jakob Falur. Geirinn sem næstur kemur, hugbúnaðar- og tölvuþjónusta, ver bara 9,7 prósentum af veltu til rannsókna og þróunar.

„Engum blöðum er um það að fletta að þarna eru mikil tækifæri fyrir okkur, enda eru hér allir innviðir til staðar, auk þekkingar sem byggst hefur upp undanfarin ár,“ segir Jakob Falur og segir því hafa verið ánægjulegt að sjá í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að til stæði að afnema það þak sem verið hefur á endurgreiðslum kostnaðar til fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. „Það er til mikils að vinna að styrkja og efla þann þekkingargeira sem hér hefur byggst upp í líftækni- og lyfjageira.“

Tölur EFPIA, samtaka lyfjaframleiðenda í Evrópu, benda til þess að kostnaður við rannsóknir og þróun sem liggur að baki nýju frumlyfi nemi um 112 milljörðum króna. Samtökin áætla að árið 2016 hafi lyfja- og líftæknifyrirtæki veitt 35 milljörðum evra til rannsókna og þróunarstarfs, eða sem svarar til 4.400 milljarða íslenskra króna. Í geiranum hafi starfað um 745 þúsund manns, þar af 115 þúsund beint við rannsóknir og þróun.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.