Eitt merkasta fagtímarit landsmanna 100 ára

11.12.2014

- Frumkvöðuls á sviði heilbrigðis- og velferðarmála minnst

lblLæknablaðið er eitt merkasta fagtímarit sem gefið er út hérlendis og þótt víðar væri leitað. Það hefur verið gefið út í samfleytt 100 ár og er eitt elsta tímaritið sem gefið er út hér á landi. Aðeins Skírnir, Morginblaðið, Búnaðarritið og Freyr eiga sér lengri samfellda sögu. Rætur Læknablaðsins eru að finna í bernsku Læknafélags Reykjavíkur sem stofnað var 1909, fimm árum áður en fyrsta tölublað Læknablaðsins leit dagsins ljós. Á þessum árum voru flestir hérlendir læknar áskrifendur að erlendum fagtímaritum og þótti þeim það sem hér var að gerast í læknavísindunum skila sér illa til kollega annars staðar, ekki síst íslenskra lækna sem staðsettir voru í dreifbýlinu vítt og breitt um land.

Í grein sem Óskar Einarsson reit í Læknablaðið 2004, í tilefni af 90 ára afmæli blaðsins, segir hann blaðið hafa „frá upphafi miðlað læknum alhliða fræðslu um allt sem viðkemur starfi þeirra, hvort sem um sjúkdóma ellegar sjúkdómavarnir varð­ar.“ Óskar fletti gegnum tölublöð útgáfunnar. Segir hann þau sýna svo berlega hve óskaplegar breytingar hafi orðið á þjóðlífi landsmanna á þeim árum sem liðið hafa frá stofnun Læknablaðsins.

Guðmundar Hannessonar minnst

lblgummiÍ nýjasta tölublaðinu, því hundraðasta, er fróðleg og áhugaverð fræðigrein um Guðmund Hannesson lækni frá Guðlaugsstöðum í Blöndudal í Húnaþingi, sem var frumkvöðull á sínu sviði hér á landi á síðustu öld. Greinina má einnig nálgast á vef Læknablaðsins. Guðmundur gegndi fjölmörgum og ólíkum forystuhlutverkum í þágu íslensks samfélags. Hann samdi bækur og greinar um lækningar og heilbrigðismál, læknisfræðiheiti og skipulagsmál. Hann var frumkvöðull að stofnun Læknafélags Íslands og jafnframt fyrsti formaður þess, og átti einnig frumkvæði að útgáfu Læknablaðsins, þar sem hann var einnig ritstjóri um tíma.

Í greininni segir að styrkur Guðmundar hafi fyrst og fremst falist í skilningi hans á hlutverki læknisins við að byggja upp heilbrigt samfélag. „Hann skilgreindi hlutverk læknisins þannig að þeir ættu að sjá til þess „að sem flestir fæðist hraustir og sem best gefnir, að þeir alist upp og lifi andlega og líkamlega hraustir og að þeir sem sýkjast séu læknaðir ef þess er nokkur kostur en hinum hjúkrað.“

Guðmundur kom víða við á æviferlinum. Hann var héraðslæknir í Skagafirði og síðar Eyjafirði, þar sem Guðmundur kom „fram sem einn af máttarstólpum samfélagsins og þar steig hann mörg af sínum fyrstu skrefum í þeim málum sem hann varð þekkastur fyrir,“ segir í Læknablaðinu.

Það er óhætt að mæla með lestri fræðigreinar Læknablaðsins um Guðmund Hannesson, sem í sínum greinum las mönnum gjarnan pistilinn.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.