Eldhúsdagsumræðurnar og heilbrigðismálin

10.09.2015

fjr2016Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 hefur verið lagt fram á Alþingi og kynnt með hefðbundnum hætti af fjármálaraáðherra. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði u.þ.b. 681 milljarður króna. Hlutfallslega er mestu, eða ríflega fjórðungi af þessum fjármunum varið til heilbrigðismála, eða rétt tæpum 160 milljörðum króna. Og ef útgjöldum til almannatrygginga og velferðarmála almennt er bætt við, þá fara um 48,4% af útgjöldum ríkissjóðs til þessa málaflokks. Í kjölfar þess að fjárlagafrumvarpið var lagt fram flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína á Alþingi og umræður um hana fylgdu í kjölfarið. En hvað sögðu alþingismenn um heilbrigðismál í eldhúsdagsumræðnum um þennan stærsta útjgaldalið ríkissjóðs, heilbrigðismálin?

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:

sdgFramlög til heilbrigðismála hafa aldrei verið jafn mikil. Það sama á við um framlög til nánast allra velferðarmála, félagsmála og almannatrygginga. Sem dæmi má nefna að hrein aukning framlaga til heilbrigðis- og félagsmála á kjörtímabilinu nemur 26 milljörðum kr. og er þá bæði búið að undanskilja launahækkanir og verðlagshækkanir. Þetta samsvarar því að hálfur Landspítali hafi bæst við velferðarútgjöldin á fyrri hluta kjörtímabilsins. Allar líkur eru á því að svigrúm verði til að gera enn betur á næstu árum. Því má með sanni segja að ríkisstjórnin sé nú að kynna velferðarfjárlög.

 

 

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna:

katajakFjárfesting í rannsóknum og nýsköpun mun skila aukinni hagsæld fyrir almenning allan og það er undirstaða samfélagsins að við fjárfestum í innviðum, samgöngum og fjarskiptum þannig að óháð búsetu geti sem flestir nýtt hugmyndir og þor til að láta draumana rætast, hvort sem það er að byggja upp sushi-stað á Seyðisfirði eða ferðaþjónustu í Djúpavík. Það á að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu þannig að fólk um land allt geti notið öryggis og velferðar. Umfram allt er okkar auður í fólki og þess vegna á að tryggja öllum grunnframfærslu, þar með talið öryrkjum og eldri borgurum sem hafa setið eftir þó að þeir eigi allan rétt á sömu tækifærum og aðrir. Og þar skiptir líka miklu að tryggja gjald á grunnþjónustu á sem flestum sviðum, draga úr greiðsluþátttöku almennings þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu.

Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingunni:

kjulStolt og sterk þjóð býr vel að þeim elstu og yngstu. Hjá henni eru jöfn tækifæri til menntunar sjálfsögð. Þar er jafn aðgangur að öflugri velferðar- og heilbrigðisþjónustu sjálfsagður. Jafn aðgangur að heilbrigðiskerfinu er grundvallarstef jafnaðarstefnunnar. Þar kaupir sig enginn fram fyrir biðröð af því að hann er efnaður. Við jafnaðarmenn viljum sjá miklar breytingar á sviði heilbrigðismála á komandi missirum og vonum að um tillögur okkar geti náðst góð samstaða í þinginu og vil ég draga fram sérstaklega nokkur atriði.

Í fyrsta lagi þarf að auka fjárframlög til sjúkrahúsanna í landinu. Staða sjúkrahúsanna er ekki nógu góð. Þau fá ekki nægjanlega fjármuni til að standa undir auknum verkefnum sem fylgir þjóð sem er að eldast og hinum nýtilkomna gríðarlega straumi ferðamanna til landsins. Þannig búum við ekki starfsfólkinu, okkar framúrskarandi starfsfólki, bestu mögulegu aðstæður til að sinna sínum störfum.

Í öðru lagi þarf að setja meiri kraft í byggingu nýs landspítala. Ég held að enginn velkist í vafa um að í þá byggingu þurfi að ráðast ef við ætlum að reka heilbrigðiskerfi í fremstu röð. Aðbúnaður sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks við óbreyttar aðstæður er algerlega óviðunandi.

Í þriðja lagi þarf að endurskoða ákvarðanatöku þegar kemur að lyfjagjöf eða það sem kallað hefur verið S-merkt lyf. Hvernig má það vera að það sé kvóti á því hversu margir geti fengið nauðsynleg lyf hér á landi? Hvernig má það vera að peningar ráði för þegar kemur að því að ákveða til dæmis lyfjagjöf vegna lifrarbólgu C — dæmi sem er vel þekkt — en ekki faglegt mat á því hvað sé best fyrir sjúklinginn? Þetta er óásættanlegt og þessu verðum við að breyta.

Í fjórða lagi þarf líka að efla heilsugæsluna, aðgengi að henni, auk heimahjúkrunar í samstarfi við sveitarfélögin.

Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki:

jongÞað skiptir okkur miklu í samanburði við framleiðni í öðrum löndum að ungt fólk hér á landi komi inn á vinnumarkaði á sama aldri og ungmenni í nágrannalöndum okkar. Hið opinbera getur tekið mikið til sín í þessum ranni. Það á ekki síst við í heilbrigðiskerfinu þar sem framleiðnin er á engan hátt ásættanleg. Aukinn sjálfstæður rekstur og bygging nýs landspítala eru lykilatriði í þeim málaflokki að mínu mati.

Í dag boðar ríkisstjórnin 1.200 millj. kr. framlag til að vinna bug á biðlistum í heilbrigðiskerfi okkar. Það bíða um 3.500 manns eftir augasteinaaðgerðum, um 1.150 manns eftir liðskiptaaðgerðum og mörg fleiri dæmi má nefna. Kostnaður samfélagsins af veikindum þessa fólks er stórkostlegur, að ekki sé talað um þjáningar einstaklinganna sem í hlut eiga. Aukin fjölbreytni í sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu á að eiga stóran þátt í því að fljótt og vel takist til við að eyða þessum biðlistum.

Sem dæmi um reynslu okkar af þessu má nefna það þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi heilbrigðisráðherra, lækkaði með samningi við sjálfstæða læknastofu kostnað við augasteinaaðgerðir á árunum 2007/2008. Kostnaðurinn fór úr 240 þús. kr. í 105 þús. kr. Samningurinn varð til þess að biðlistar drógust verulega saman á örskömmum tíma. Þá sömu leið eigum við að fara í dag þar sem tækifæri er til og við eigum að skapa farveg fyrir slík tækifæri.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.