Fáfræði og hjáfræði um bólusetningar

20.02.2015

Í greininni lýsa þau reynslu sinni af hjálparstarfi erlendis sem m.a. fólst í aðstoð við bólusetningarherferð gegn lömunarveiki með bílusetningu barna á Indlandi.

 

Þau segja fullyrðingar um skaðsemi bólusetninga verða æ algengari í hinum vestræna heimi vegna óvísindalegrar hjáfræði sem kynnt sé sem vísindi. „Við Íslendingar teljum okkur upplýsta þjóð og getum fyllst réttlátri reiði yfir fáfræði og andstöðu þeirra sem vinna gegn því að það takist að útrýma þessum og öðrum hættulegum sjúkdómum með bólusetningum. En við skulum líka horfa okkur nær,“ segja þau.

 

„Saga bólusetninga á Íslandi sannar gagnsemina en eftir því sem tíðni sjúkdóma sem bólusett er fyrir fer lækkandi hefur umræðan um öryggi bólusetninga farið vaxandi. Bóluefni og önnur lyf hafa alltaf einhverjar aukaverkanir en alvarlegar aukaverkanir bólusetninga eru fátíðar. Samkvæmt upplýsingum sóttvarnalæknis má gera ráð fyrir u.þ.b. einni slíkri af hverjum 500.000-1.000.000 bólusettum. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir.“

 

Frumtök taka undir með greinarhöfundum og leyfa sér að birta greinina hér óstytta lesendum vefsíðunnar til fróðleiks (millifyrirsagnir eru Frumtaka):

 

Ekki lengur landlægt í Indlandi

„Fyrir sléttum þremur árum tókum við hjónin sem rótarýfélagar þátt í samfélagsverkefnum í Indlandi með aðstoð við stíflugerð og bólusetningarherferð gegn lömunarveiki (pólíó, mænuveiki, mænusótt). Með samstilltu átaki heilbrigðisyfirvalda í Indlandi með aðstoð frá Sameinuðu þjóðunum (WHO, UNICEF) og félagasamtökum eins og Rótarý náðist sá árangur að í dag er sjúdómurinn ekki lengur landlægur í Indlandi. Átak Rótarý hófst árið 1985 en þá veiktust um 350 þús. börn árlega en nú er fjöldinn um eitt þúsund börn.

 

Fáfræði hamlar fullnaðarsigri

Veiran þrífst í görnum manna og smitast með saur sem kemst í snertingu við mat eða annað sem berst upp í munn. Veiran er af þremur afbrigðum og er nánst búið að útrýma hættulegusta afbrigðinu. Halda verður áfram að bólusetja gegn lömunarveiki í a.m.k. 3 ár eftir að síðustu tilvikin hafa komið fram. Veirusýkingin er enn landlæg í þremur löndum, þ.e. Pakistan, Afganistan og Nígeríu en smitast til fjölmargra landa. (Sjá polioeradication.org/Dataandmonitoring.) Árið 1977 tókst að útrýma bólusótt (e. smallpox) með bólusetningum en því miður er fáfræði helsta skýring þess að ekki hefur enn tekist að klára verkið að útrýma lömunarveiki í heiminum.

 

Ráðist á þá sem bólusetja

Í flestum tilvikum veikjast börn innan sex ára aldurs. Á Indlandi sáum við með eigin augum hvernig mæðurnar vildu bólusetja börnin sín en nokkrir fáfróðir feður og trúarleiðtogar vildu koma í veg fyrir það. Ástandið er enn erfiðara í Pakistan, Afganistan og í norðurhluta Nígeríu þar sem ráðist er á þá sem vinna að bólusetningum og margir þeirra fórna lífi sínu til þess að aðrir megi lifa.

 

Við Íslendingar teljum okkur upplýsta þjóð og getum fyllst réttlátri reiði yfir fáfræði og andstöðu þeirra sem vinna gegn því að það takist að útrýma þessum og öðrum hættulegum sjúkdómum með bólusetningum. En við skulum líka horfa okkur nær.

 

Afgerandi kostir

Saga bólusetninga á Íslandi sannar gagnsemina en eftir því sem tíðni sjúkdóma sem bólusett er fyrir fer lækkandi hefur umræðan um öryggi bólusetninga farið vaxandi. Bóluefni og önnur lyf hafa alltaf einhverjar aukaverkanir en alvarlegar aukaverkanir bólusetninga eru fátíðar. Samkvæmt upplýsingum sóttvarnalæknis má gera ráð fyrir u.þ.b. einni slíkri af hverjum 500.000-1.000.000 bólusettum. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir.

 

Bjargað fleiri mannslífum en nokkur önnur heilbrigðismeðferð

Fullyrðingar um skaðsemi bólusetninga verða æ algengari í hinum vestræna heimi. Þær eru oftast byggðar á óvísindalegri hjáfræði sem klædd er í búning vísinda. Horft er á stakar aukaverkanir, bæði raunverulegar og ímyndaðar, en ekki heildarmyndina. Þátttaka í bólusetningum þarf að vera vel yfir 90% til að verjast faröldrum.

Bólusetningar hafa bjargað fleiri mannslífum en nokkur önnur heilbrigðismeðferð. Vegna almennrar þátttöku landsmanna í bólusetningum hefur til þessa ekki verið talin þörf á að gera bólusetningu að skyldu. Það er samfélagsleg skylda okkar að vinna gegn fáfræði og hjáfræði sem er ógn við heilbrigði.“

 

Á bilinu 12 til 5 prósent barna á Íslandi eru ekki bólusett

Þess má geta í lokin að talið er að á bilinu 12 til 5 prósent barna á Íslandi séu ekki bólusett við helstu sjúkdómum sem bólusett er við hér á landi, samkvæmt því sem fram kom í svari heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, við fyrirspurn á Alþingi og sem lesa má hér.

 

Nánari upplýsingar

 Tryggvi&Rannveig-grein18FEB15

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.