Fagna ber nýjum rannsóknum

15.02.2018

Lyfjaþróun og lyfjarannsóknir eru meðal þeirra þátta heilbrigðisvísindanna sem einna mest áhrif hafa haft til þess að bæta heilsufar, lífslíkur og lífsgæði fólks. Um er að ræða flókið ferli þar sem sannreyna þarf áhrif lyfjanna og virkni, um leið og skimað er fyrir aukaverkunum.

Í Fréttablaðinu í dag, 15. febrúar, er fjallað um rannsóknir vísindamanna við Rockefeller-háskóla í New York í Bandaríkjunum sem leitt hafi til uppgötvunar nýrrar tegundar sýklalyfja. „Þetta nýuppgötvaða efnasamband sem fyrirfinnst í jarðvegi hefur hlotið nafnið malacidin. Frekari rannsóknir á efninu hafa leitt í ljós getu þess til að tortíma nokkrum bakteríum sem hafa þróað með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum,“ segir þar. Ónæmi baktería fyrir sýklalyfjum er einhver alvarlegasta ógn sem stafar að nútíma heilbrigðisvísindum. Bent er á að vísindamenn hafi víða leitað að nýjum sýklalyfjum til að berjast gegn útbreiðslu ónæmra baktería, þar á meðal MÓSA-baktería, sem ónæmar séu fyrir hefðbundnum sýklalyfjum.

Í blaðinu er líka tekið fram að langt sé í land með að malacidin verði notað í almennri læknisþjónustu, en til að bregða mynd á ferlið sem hafið er við þróun lyfja þá má gera ráð fyrir að svokallaður rannsóknar- og þróunarfasi lyfst taki um tíu ár. Frá því að virkt lyfjaefni er uppgötvað og þar til lyf fara á markað fara fram þrotlausar rannsóknir, þróunarvinna og prófanir til þess að tryggja öryggi þess sem lyfið fær.

Hluti af þeim forklínísku rannsóknum sem fram fara fyrstu árin eru skimun fyrir bráðum eiturverkunum, greininga á lyfjafræði og skimun fyrir langvinnri eiturverkun. Þegar lyf eru komin í gegn um þessar fyrstu rannsóknir þá hefjast eiginlegar klínískar rannsóknir, áður en kemur að skráningu lyfja og umsóknum um markaðsleyfi. Eins og gefur að skilja er ferlið kostnaðarsamt og í raun fá virk lyfjaefni sem á endanum verða að lyfjum.

„Vegna þessa mikla kostnaðar eru ný lyf svo varin einkaleyfi, en það tímabil er að jafnaði 20 ár frá því fyrstu rannsóknir hefjast,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Vönduð og vel rannsökuð lyf skipta oft sköpum og ljóst að án lyfja hefði framþróun heilbrigðismála orðið með öðrum hætti en við þekkjum. Sýklalyfjaónæmi er alvarlegt vandamál og sérstakt fagnaðarefni að hafnar séu rannsóknir sem leitt geti til þróunar á nýjum og betri sýklalyfjum.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.