Fjallað um byltingu vegna nýrra lyfja

05.03.2018

Fjallað er um þær miklu framfarir sem orðið hafa á undanförnum árum í meðferð við psoriasis og exemi í nýjasta helgarblaði Morgunblaðsins. Í umfjölluninni er rætt við Ingibjörgu Eyþórsdóttur, hjúkrunarfræðing og stjórnarkonu í Spoex, Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga, sem bendir á að þó enn hafi ekki fundist lækning við sjúkdómnum sé nú svo komið að í langflestum tilvikum eigi að vera hægt að halda einkennum hans í skefjum með réttri meðferð.

Ingibjörg segir stóru byltinguna í meðferð psoriasis hafa orðið þegar læknavísindin áttuðu sig á að um bólgusjúkdóm væri að ræða en ekki húðsjúkdóm. „Bólguna má rekja til ónæmiskerfisins og í tilviki psoriasis byrjar líkaminn að mynda mótefni gegn sjálfum sér svo að bólga framkallast. Hafa nú verið þróuð ný lyf sem reyna að vinna bug á bólgunni, og þannig draga úr einkennunum,“ segir í umfjöllun blaðsins.

Sjúkdómurinn birtist með mismunandi hætti hjá fólki og því er beitt fjölbreyttum meðferðarúrræðum. „Ef einkennin eru ekki orðin þeim mun meiri þegar fyrst er leitað til læknis þá er fyrst veitt svæðisbundin meðferð með kremum, smyrslum eða sterakremum. Ef það dugar ekki tekur við ljósameðferð þar sem einstaklingurinn þarf að koma nokkrum sinnum í viku í stutt UVB ljósaböð,“ segir Ingibjörg í viðtali við Morgunblaðið. „Ef ekki gefst nægilegur árangur með ljósameðferð eru gefin lyf, og dugi þau ekki til þá má undirgangast líftæknilyfjameðferð sem er nýjasta og áhrifaríkasta úrræðið.“

Líftæknilyfin eru sögð notuð síðust vegna þess hve meðferðin sé kostnaðarsöm. „Lyfið er þá oftast gefið í æð á sjúkrahúsi og undir eftirliti sérfræðinga, eða að sjúklingur lærir að gefa sér lyfið sjálfur undir húð. Líftæknilyfin eru öflug en meðferðin getur kostað 2-3 milljónir á ári fyrir hvern sjúkling,“ segir Ingibjörg í blaðinu. „Hafa líftæknilyfin ekki síst haft mikla þýðingu fyrir fólk með psoriasisgigt, sem er mjög illskeytt afbrigði gigtar og gat áður fyrr skert lífsgæði fólks verulega.“

Lyfjaþróun og lyfjarannsóknir eru meðal þeirra þátta heilbrigðisvísindanna sem einna mest áhrif hafa haft til þess að bæta heilsufar, lífslíkur og lífsgæði fólks. Á vettvangi Frumtaka hefur áður verið fjallað um hvernig um er að ræða flókið ferli þar sem sannreyna þurfi áhrif lyfjanna og virkni, um leið og skimað sé fyrir aukaverkunum. „Vönduð og vel rannsökuð lyf skipta hins vegar oft sköpum og ljóst að án lyfja hefði framþróun heilbrigðismála orðið með öðrum hætti en við þekkjum. Það er alltaf ánægjulegt að sjá þegar vel heppnuð lyfjaþróun samhliða læknisfræðilegum uppgötvunum verða til þess að bæta heilsu fólks og auka lífsgæði,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.