Fjallað um drátt á fjármögnun nýrra lyfja

12.04.2017

Fjallað er um það í Fréttablaðinu í dag að enn hafi ekki verið tryggðir fjármunir til innleiðingar á nýjum lyfjum hér á landi. Vísað er til samþykktar ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar um að það yrði gert.

Haft er eftir Ragnheiði Davíðsdóttur, formanni Krafts, stuðningsfélags ungs fólks með krabbamein og aðstandendur þeirra, að alvarlegt sé að fólk þurfi að bíða svo lengi eftir efndum.

Fréttin staðfestir viðbrögð sem Frumtök hafa fengið við fyrirspurnum um heimildir til afgreiðslu á umsóknum um ný lyf hjá lyfjagreiðslunefnd. „Við höfum staðfest að einhver bið sé á að nefndin samþykkti leyfisskyldu í nýjum lyfjum, en jafnframt að fullur vilji sé til að koma hreyfingu á þessi mál,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

„Fyrir liggur að umsóknir fyrir ný lyf eru ekki afgreiddar sökum fjárskorts, jafnvel þó svo vera kunni að fengist hafi afgreiðsla á einhverjum afmörkuðum tilvikum. Það má taka undir það með Ragnheiði Davíðsdóttur hjá Krafti að vonbrigði séu hversu langan tíma það taki að koma þessum málum í eðlilegan farveg.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.