Fjölga þarf meðferðarúrræðum

15.08.2014

Robin_WilliamsKvikmyndaleikarinn bandaríski, Robin Williams, er mörgum harmdauði en hann svipti sig lífi sem kunnugt er á heimili sínu sl. mánudag. Fréttir af andláti hans urðu tilefni samfélagsumræðu víða um heim, m.a. hér á landi um þunglyndi sem talið er að hafi verið rót þeirrar ákvörðunar leikarans að fremja sjálfsmorð. Meðal annars vakti þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, máls á viðfangsefninu í færslu á fésbókarsíðu sinni ásamt því sem fleiri hafa fjallað um sjúkdóminn og meðferðarúrræði við honum.

Helgi Gunnar segir m.a. um reynslu sína af þunglyndi að ekki þýði að biðja þá sem þunglyndið hrjái að útskýra vanlíðan sína því þunglyndi sé „röklaus vanlíðan; afleiðing einskis nema mistaka heilans.“ Hann brýnir fyrir þeim sem líði illa að leita sér hjálpar og að í því sé engin skömm. „Til allra sem kannast við þetta ástand vil ég segja þetta. Gefðu læknunum og lyfjunum séns. Ef þér líður alltaf illa, jafnvel þegar þú lætur eins og þér líði vel; ef þér finnst sífellt eins og eitthvað hræðilegt sé u.þ.b. að fara að gerast, íhugaðu að tala við lækni og sálfræðing og taktu næstu skref með opinn huga í samráði við báða.“ Helgi brýnir fyrir fólki sem þjáist af vanlíðan að útiloka ekki lyf sjálfkrafa. „bara vegna þess að þér er illa við að taka pillur eða finnst það ekki nógu náttúrulegt. Læknavísindin eru ekki fullkomin og enginn hefur sagt þau vera það en þau bjarga mannslífum. Þau björguðu mínu,“ segir Helgi og kveðst eiga þeim líf sitt að launa.

 

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi - en í hvaða samhengi?

Umræðan um almennt mikla lyfjanotkun í hinum vestræna heimi er m.a. sptottin af meiri og fjölbreyttari meðferðarúrræðum sem bjóðast. Samkvæmt skýrslu OECD frá því í nóvember 2013 virðist þó sem Íslendingar noti mun meira af þunglyndislyfjum en aðrar þjóðir. Þegar skýrslan kom út sagði breska blaðið Guardian m.a. að hún sýndi að þar sem notkunin væri mest, væri rúmlega einn af hverjum tíu landsmönnum á þunglyndislyfjum. Samkvæmt skýrslunni neyttu Íslendingar mest slíkra lyfja. Í kjölfarið fylgja Ástralía, Kanada og síðan hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Í kjölfar andláts Robin Williams í byrjun vikunnar birtist svo á miðvikudaginn var frétt á vef Guardian þar sem fram kemur að um tveir þriðju hluti Breta sem þjást af andlegum sjúkdómum, fái enga meðferð. Segir blaðamaðurinn að það sé ástand sem breska þjóðin myndi aldrei sætta sig við ef um væri að ræða aðra tegundir sjúkdóma, t.d. krabbamein. Segir í fréttinni að fjöldi ómeðhöndlaðra sé slíkur að líklega verði aldrei hægt að brúa bilið vegna kostnaðarins sem af því hlytist fyrir breska heilbrigðiskerfið.

 

Varasamur samanburður

Af þessu tilefni benti Magnús Karel Magnússon, læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, á að sennilega séu geðsjúkdómar víða vanmeðhöndlaðir og því geti samanburður við erlend ríki verið varasamur. Hann segir að hér á landi þurfi þó engu að síður að fjölga meðferðarúrræðum, svo sem viðtalsmeðferðum. Á það hefur Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir einnig bent, en hann segir mikla vöntun á geðhjálp og sálfræðiþjónustu.

Frumtök taka undir með þeim sem hér hafa verið nefndir. Notkun þunglyndislyfja hér á landi er vissulega mikil í alþjóðlegu samhengi. Það er mikilvægt að lyf séu rétt notuð og með virku og skilvirku eftirliti þarf að sporna gegn misnotkun þeirra. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu OECD virðist sem þunglyndistilfellum hafi ekki fjölgað í samræmi við lyfjaávísanir. Það bendi til þess að að hér á landi sé þunglyndislyfjum einnig ávísað til þeirra sem glíma við væg einkenni og þurfa e.t.v. aðgang að fleiri meðferðarúrræðum en eingöngu lyfjagjöf.

 

Nánari upplýsingar

 

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.