Forgangsröðun í heilbrigðisgeiranum er staðreynd

11.01.2013

1057588_hospital_corridorTöluverð umræða hefur að undanförnu skapast um ástand heilbrigðiskerfisins. Umræðan kemur reglulega upp, vegna ólíkra mála, núna síðast vegna nauðsynlegra lyfja fyrir sjaldgæfan sjúkdóm, þar áður fyrir nokkru vegna breyttrar greiðsluþátttöku á metýlfenídatlyfjum og flesta mánuði má eitthvað lesa um kjör heilbrigðisstétta og starfsumhverfi.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, lét hafa eftir sér um helgina að aldrei væri: „hugsað um peninga þegar fólk er að ræða um líf, eins og í þessu tilfelli", og vísaði hann þar til nýlegrar umfjöllunar. Það er vissulega lofsvert að marka stefnuna á þennan hátt en fram til þessa hefur raunveruleikinn hinsvegar verið annar í augum margra skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins.

Munurinn á upplifun ráðherrans annarsvegar og ótilgreindra skjólstæðinga hinsvegar liggur sennilega í því að hve miklu leyti líf er í húfi.

Það liggur til dæmis fyrir að líf sjúklinga er ekki endilega framlengt með læknisfræðilegu inngripi þegar lífsgæði eru orðin mjög skert, þó mögulega væri það hægt. Staðreyndin er auðvitað sú að við þær aðstæður þar sem ekki er nóg til skiptanna í ríkiskassanum er nauðsynlegt að forgangsraða og yfirlýst markmið undanfarinna missera hefur verið það að vernda heilbrigðisþjónustuna. Sitt sýnist hverjum um hvort það hefur tekist.

Það er óumflýjanlegt að horfst verði í augu við það hvort gengið hafi verið of nærri heilbrigðisstofnunum landsins og hvort forgangsröðunin hafi verið rétt.

Ein grunnforsenda þess að hægt sé að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu er að aðgangur að nýjum lyfjum sé góður. Ástæðan er sú að svo lengi sem lyf eru besti kosturinn þá næst fram meiri sparnaður í heilbrigðisgeiranum, sparnaður sem skapar svigrúm fyrir alla aðra meðhöndlun sem heilbrigðisstofnunum er ætlað að veita.

Í Bandaríkjunum hafa verið tekin dæmi af því að fyrir hvern dollar sem fjárfest er í lyfjum sparast 6 dollarar annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu. 6 dollarar sem annars færu í kostnað heilbrigðiskerfisins, innlagnir og læknisheimsóknir.

Svipað er uppi á teningnum á Íslandi. Á mælaborði Frumtaka, þar sem finna má ýmsar lykiltölur úr lyfjageiranum á Íslandi, má sjá að hlutur lyfja er aðeins 2,38% af útgjöldum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2013. Rúmir 29 milljarðar fara í sjúkratryggingar á fjárlögum ársins, 6,3 í lækniskostnað á móti samtals tæpum 8,5 milljörðum í lyf. Þar af eru sjúkrahúsalyf tæpir 5,2 milljarðar.

Athygli vekur að útgjöld til lyfjamála lækka um 6% á milli ára og að stefnt er að 470 milljóna sparnaði með nýju greiðsluþátttökukerfi og afnámi greiðsluþátttöku fyrir ákveðin lyf. Það er forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöld eiga að leita leiða til að lækka verð á samheitalyfjum, sem er nokkuð hátt hér á landi. Með lægra verði á samheitalyfjum ætti að skapast frekara svigrúm til fjárfestinga í nauðsynlegum sjúkrahúslyfjum. Það væri einnig forgangsröðun.

Það verður einnig að líta til starfsumhverfisins í heilbrigðisgeiranum á Íslandi. Hvort sem það er vinnuálag eða launakjör, skammtímasjónarmið eða forsendubrestur, hljóta flestir að vera sammála því að nauðsynlegt sé að skapa stöðugleika á sem flestum sviðum innan heilbrigðisgeirans. Með stöðugleika er hægt að gera áætlanir og með stöðugleika er hægt að ná öruggri viðspyrnu til árangurs. Lyfjageirinn á Íslandi myndi gjarnan vilja sjá unnið eftir áætlunum til jafn langs tíma og unnið er eftir á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku.

Það er ennfremur áhyggjuefni að í hvert skipti sem litið er á útgjöld ríkisins sé jafnan litið til fjárfestinga í lyfjum og markið sett á að draga úr kostnaði við þá fjárfestingu. Það er jafnframt sérkennilegt að sjá að sú forgangsröðun sem felst í niðurskurðinum sé ekki sýnileg ráðamönnum og því er ástæða til að spyrja, hvenær sé spurt um kostnað.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.