Frá golfferðum til aukins gagnsæis

25.01.2016

Læknadagar 2016 voru haldnir í Hörpu 18.-22. janúar. Fjölmiðlaumfjöllun var nokkur að vanda. Spegillinn á RÚV var þar á meðal og tók til umfjöllunar ýmisleg mál, þar á meðal samskipti lækna og lyfjafyrirtækja. Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður, vann greinargóða umfjöllum sem við leyfum okkur að halda til haga hér á vefnum okkar. Frétt RÚV er hér.

Tengsl lækna og lyfjafyrirtækja eru viðkvæm og um þau gilda siðareglur og samningar. Heimildamenn Spegilsins eru flestir á því að tengslin séu nú í mun eðlilegri og faglegri farvegi en þau voru fyrir nokkrum árum. Þróunin virðist vera í átt til aukins gagnsæis en tengslin hafa ekki verið könnuð til hlítar. Lyfjastofnun viðurkennir að eftirlit með þessum samskiptum mætti vera meira.

Upplifðu þetta ekki sem mútur

„Það gekk á ýmsu þarna, sérstaklega undir lok aldarinnar. Þá var mikið um það sem sumir kölluðu mútuferðir. Læknum var boðið í golfferðir, jafnvel með mökum sínum til Spánar. Þeir fengu gjafir, fóru í ferðalög þar sem átti að kynna ný lyf en mestur tími fór í hálfgerðar svallveislur með mat og drykk og svo fram eftir götunum. Um aldamótin voru í gangi málaferli í Þýskalandi, það voru um 300 þýskir læknar ákærðir fyrir mútuþægni og álíka margir fulltrúar lyfjafyrirtækja því þetta er lögbrot á báða bóga, mútur. Maður upplifði sjálfur þetta ástand og heyrði ýmislegt beint og óbeint frá kollegum,“ segir Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor í lyfjafræði.

Æ sér gjöf til gjalda

Hann segir læknana sjálfa ekki hafa litið á þetta sem mútur, þetta hafi einfaldlega verið hluti af lífi lækna á þessum tíma. En hafði þetta áhrif á ávísanavenjur þeirra? „Ég held því fram að það hafi gert það, það er gamalt íslenskt máltæki sem segir: æ sér gjöf til gjalda, það eru alltaf einhverjar skuldbindingar sem fylgja, beint eða óbeint og kannski aðallega óbeint í svona tilviki. Þannig að þegar læknar voru búnir að þiggja gjafir eða fyrirgreiðslur þá fannst þeim þeir á vissan hátt skuldbundnir viðkomandi fyrirtæki.“

Færst til betri vegar síðastliðinn áratug

Árið 2004 skrifaði Sigurður Guðmundsson, þáverandi Landlæknir, grein í Læknablaðið þar sem fram kom að samskipti lækna og lyfjafyrirtækja byðu upp á verulega hagsmunaárekstra, svo mikla að þau þyldu illa dagsins ljós. Hann benti á að erlendar rannsóknir hefðu sýnt fram á að samskipti lækna og lyfjafyrirtækja hefðu mælanleg áhrif á lyfjanotkun lækna en að engar upplýsingar væru til um þessi áhrif hér á landi. Ekki væri rétt að ætla að þessu væri öðruvísi háttað hér.

Magnús telur að síðastliðinn áratug hafi samskiptin færst til betri vegar. Siðareglur hafi skipt sköpum. „Og síðan bara almenn umræða um þetta vandamál, hún hafi haft sitt að segja.“ Hér á landi var ekkert opinbert uppgjör við þessa tíma, breytingarnar urðu smám saman. 

Engar Michelin-stjörnur

Frá aldamótum hefur talsvert vatn runnið til sjávar. Reglur Landspítalans um samskipti starfsmanna spítalans við lyfjafyrirtæki voru settar árið 2004 og nánari reglur árið 2010. Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, tóku upp siðareglur EFPIA, samtaka lyfjaiðnaðarins í Evrópu, árið 2006. Þá er í gildi samningur milli Frumtaka og Læknafélags Íslands frá árinu 2013.

Lyfjafyrirtækjum er samkvæmt reglunum óheimilt að bjóða heilbrigðisstarfsfólki gjafir eða fé á kynningum en heimilt að styrkja ráðstefnur og fundi og veita heilbrigðistarfsmönnum styrki til þess að fara utan á viðburði. Risna í tengslum við slíkt á þó að takmarkast við ferðir, máltíðir, gistingu og skráningargjöld. Hótel mega vera fjögurra stjörnu hið mesta og ekki má greiða fyrir málsverði á veitingastöðum sem hlotið hafa Michelin stjörnu. Samkvæmt siðareglum Landspítalans þurfa öll samskipti lækna við lyfjafyrirtæki að fara í gegnum yfirlækni. Hann ákveður hvort kynna megi einstök lyf fyrir starfsmönnum og metur hvort ráðstefnur sem læknum er boðið á gagnist þeim í starfi.

Verðum að vera gagnrýnin

Halldóra Jónsdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, segir samskiptin minni en áður. Þau lúti fyrst og fremst að fræðslu og kynningum. Lyfjafyrirtæki komi upplýsingum um ný lyf sem verið er að þróa á framfæri. „Flestir læknar fylgjast nú með því þegar þeir heyra af nýjum lyfjum sem verið er að þróa, hvenær þau koma. Við auðvitað viljum heyra og fá kynningar en að sama skapi berum við ábyrgð á því að vera gagnrýnin á niðurstöðurnar og skoða líka óháðar rannsóknir þegar við erum að kynna okkur þetta.“

Lyfjafyrirtækin fluttu reglurnar inn

Hún telur lækna standa sig ágætlega í þessu og að samskiptin séu almennt í eðlilegum farvegi. Það mætti þó vel setja skýrari reglur. „Það hafa orðið miklar breytingar en ég held samt sem áður að það sé full ástæða til að setja reglur um hvað má og hvað má ekki. Lyfjafyrirtæki koma oft að því að styrkja eitt og annað, fundi og fræðslu. Það hefur dregið verulega úr þessu og það hafa verið settar reglur um hvað þau megi styrkja en það er í raun þannig að þessar reglur hafa ekki verið settar hér hingað til heldur hafa lyfjafyrirtækin sem eru alþjóðleg sett sér reglur, vegna þess að erlendis eru settar reglur um þetta og svo endurspeglast þær líka hjá okkur.“

Getum við treyst þeim?

Nú eru læknar sem fóru í þessar ferðir til Spánar eða þáðu ýmislegt annað af lyfjafyrirtækjum margir starfandi í dag. Getum við treyst þeim? Halldóra telur svo vera. „Ég vona að við getum treyst þeim, að fólk láti ekki kaupa sig. Ég held í raun að langflestir læknar noti sína eigin dómgreind þegar kemur að því að ávísa lyfjum. Svo eru ekki öll lyf niðurgreidd þó þau séu notuð við meðferð sama sjúkdóms, það er mikil samkeppni á samheitalyfjamarkaði og við þurfum að velja ódýrasta lyfið, okkur eru auðvitað settar nokkrar hömlur hvað þetta varðar, af kerfinu.“

Einkum reynt að höfða til yfirlækna

Magnús segir að áður fyrr hafi lyfjafyrirtæki einkum reynt að nálgast yfirlækna og þá sem stýrðu lyfjainnkaupum. Tengsl krabbameinslækna við lyfjafyrirtæki eru sögð meiri en tengsl geðlækna við þau þar sem það er meiri framþróun fyrir að fara í þróun krabbameinslyfja en geðlyfja. Halldóra segir að í Noregi hafi lyfjafyrirtækin einkum einbeitt sér að tengslum við heimilislækna, þar sem þeir ávísuðu mestu af lyfjum.

Allt annar raunveruleiki

„Þetta er allt annar raunveruleiki sem blasir við okkur í dag, mér liggur við að segja að breytingin sé eins og svart og hvítt,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka og bætir við að álitamál tengd samskiptunum hafi síðast komið upp árið 2006 þegar mikil umræða skapaðist um hvort siðlegt gæti talist að lyfjarisinn Eli Lilly fjármagnaði jólafund Geðlæknafélagsins.

Allir styrkir opinberaðir

Hann segir fyrirtækin hafa ákveðið að setja sér siðareglur til þess að standa vörð um þessi mikilvægu samskipti. Nú hafi fyrirtækin ákveðið að ganga skrefi lengra. „Það verður að gera kröfur til okkar um að þau séu gegnsæ og við höfum tekið ákvörðun um að birta öll okkar samskipti.“

Hingað til hefur ekki verið hægt að nálgast upplýsingar um styrki sem lyfjafyrirtæki veita heilbrigðisstarfsmönnum eða félögum þeirra. „Það urðu grundvallarbreytingar í siðareglunum sem tóku gildi í byrjun árs 2015. Þar er gert ráð fyrir að árið 2015 er fyrsta árið sem við munum opinbera þau samskipti sem starfsmenn lyfjafyrirtækja eiga við heilbrigðisstarfsmenn. Fyrirtækin hafa frest fram til 1. júlí á þessu ári til þess að birta opinberlega hvaða heilbrigðisstarfsmaður var studdur til að fara á hvaða ráðstefnu og hvar og hver kostnaðurinn var við það.“

Vill fá stjórnvöld í lið með sér

Jakob Falur telur æskilegt að gengið verði enn lengra og stjórnvöld feli heilbrigðisstarfsmönnum að upplýsa um styrki sem þeir þiggja frá lyfjafyrirtækjum. „Því það er auðvelt að spyrja sig hvort allar upplýsingar eru birtar ef það eru fyrirtækin sjálf sem sjá um að gera það. Svona ætti hver og einn að geta flett upp viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni og séð hver hans hagsmunatengsl eru, líkt og á að gilda til dæmis um alþingismenn.“

Er eftirlit með framfylgd siðareglna?

Siðareglur eru góðar og blessaðar en gagnast auðvitað ekki nema farið sé eftir þeim.

Frumtök hafa ekki virkt eftirlit með því að siðareglum samtakanna sé fylgt. Árið 2013 komu Frumtök á fót úrskurðarnefnd sem brugðist getur við kvörtun lyfjafyrirtækis sem telur annað fyrirtæki hafa brotið siðareglurnar. Svo sem boðið læknum gistingu á fimm stjörnu hóteli eða ýkt kosti lyfs á lyfjakynningu. Úrskurði hennar skal birta opinberlega. Nefndin hefur aldrei komið saman enda engar kvartanir borist. Jakob segir það ekki óvenjulegt. Markaðurinn hér sé lítill en mjög reglusettur, markaðssetning fyrirtækjanna gegnsæ og verðið ákvarðað af lyfjagreiðslunefnd. Þá sé eftirlit stjórnvalda mikið.

Deildarstjórar tryggja framfylgd

Það er á ábyrgð deildarstjóra á deildum Landspítalans að tryggja að siðareglum spítalans sé fylgt. Ólafi Baldurssyni, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum, er ekki kunnugt um að álitamál, tengd samskiptum heilbrigðisstarfsmanna og lyfjafyrirtækja hafi komið upp innan spítalans síðastliðin ár. Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, telur tengsl lækna og lyfjafyrirtækja vera í eðlilegum farvegi í dag en bendir á að engin athugun hafi verið unnin á þeim.

Með viðveru á Læknadögum eftir tveggja ára hlé

Auk siðareglna eru í gildi lög og reglur um markaðsstarf lyfjafyrirtækja. Það er lögbundið hlutverk Lyfjastofnunar að hafa eftirlit með lyfjaauglýsingum og lyfjakynningum, munnlegum og skriflegum og tryggja faglega og hlutlausa upplýsingagjöf til heilbrigðisstarfsfólks.

Læknadagar hófust í dag og standa út vikuna. Lyfjastofnun hefur í gegnum tíðina fylgst með því að kynningarstarf lyfjafyrirtækja þar fari fram með eðlilegum hætti. Síðastliðin tvö ár hefur stofnunin ekki getað fylgst með en í ár verður hún á staðnum.

Átta kvartanir vegna lyfjaauglýsinga

Í skriflegu svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Spegilsins segir að síðastliðinn áratug hafi Lyfjastofnun ekki borist ábendingar vegna óeðlilegrar risnu lyfjafyrirtækja til heilbrigðisstarfsmanna. Þá hafi síðastliðin þrjú ár ekki borist ábendingar sem varða lyfjakynningar sem beinast að heilbrigðisstarfsfólki. Átta sinnum hefur þó verið kvartað til stofnunarinnar vegna auglýsinga á lyfseðilsskyldum lyfjum, en þeim er beint til heilbrigðisstarfsfólks.

Mætti efla eftirlit

Fram kemur að samskiptin við lyfjafyrirtækin og fyrirspurnir frá þeim bendi til þess að þau leitist við að fara að lögum og reglum um lyfjaauglýsingar. Stofnunin viðurkennir þó að vel mætti efla eftirlitið með lyfjaauglýsingum. Lyfjastofnun þurfi að forgangsraða eftirlitsverkefnum.

Halldóra hefur ekki orðið vör við eftirlit Lyfjastofnunar með samskiptunum og telur ekki þörf á að efla eftirlit með þeim. „Eins og staðan er í dag held ég nú að það sé ekki mikil þörf á því en það sakar auðvitað ekkert að skoða þessi samskipti.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.