Framlög til lyfjamála vanáætluð

21.12.2016

Félag atvinnurekenda, Frumtök og Samtök verslunar og þjónustu, fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna sem tengjast íslenskum lyfjamarkaði, lýsa þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðra framlaga til lyfjamála sbr. frumvarp til fjárlaga 2017. Þetta kemur fram í umsögn félaganna um fjárlagafrumvarpið sem sent var Alþingi í gær.

Í umsögninni, sem einnig er að finna hér á vef Alþingis, er bent á að samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands sé nú gert ráð fyrir að útgjöld vegna S-merktra lyfja fari um 9% fram yfir fjárheimildir ársins, en eitthvað minna þegar horft sé til almennra lyfja.

„Þessi staða er nú að koma upp enn eitt árið og ljóst, verði fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp óbreytt að lögum, að enn og aftur er verulegt ósamræmi milli fjárlaga annars vegar og raunverulegrar lyfjanotkunar í heilbrigðiskerfinu hins vegar. Eitt er víst, að sjúklingum mun ekki fara fækkandi á milli ára og aldurssamsetning þjóðarinnar heldur áfram að breytast þannig að þunginn í heilbrigðiskerfinu eykst.“ 

Sagt er með öllu óskiljanlegt að lagt sé fram fjárlagafrumvarp sem ekki taki mið af þeim raunveruleika sem notkunartölur og áætlanir Sjúkratrygginga geri ráð fyrir. Ljóst sé að frumvarpið vanáætli útgjöld til lyfjamála á næsta ári í það minnsta um 700 milljónir króna, miðað við reynslu undanfarinna ára.

„Ekki verður annað séð en að afleiðingar þessarar vanáætlunar verði þær sömu og undanfarin ár; að fé til kaupa á sjúkrahúslyfjum verður uppurið á haustmánuðum. Hjá heilbrigðisstarfsmönnum eru skiljanlega áhyggjur af því að sjúklingar fái ekki sambærilega lyfjameðferð og tíðkast í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við.“

Bent er á að nefndarmenn fjárlaganefndar séu allir með nýtt umboð kjósenda, eftir kosningabaráttu þar sem mikil áhersla hafi verið lögð á heilbrigðismálin. „Öruggt aðgengi að fullkomnum lyfjum er ein af grunnstoðum nútíma heilbrigðisþjónustu og skýtur verulega skökku við ef samþykkt verða fjárlög fyrir næsta ár sem fela í sér óhjákvæmilega umfjöllun þegar líður á næsta ár um fjárþurrð þegar kemur að fjármögnun lyfja fyrir heilbrigðiskerfið.“

Bent er á að mikið hafi verið rætt um fjármögnun heilbrigðiskerfisins og gjarnan horft til hlutfalls heilbrigðisútgjalda af vergri landsframleiðslu. Frumtök, Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu taka ekki afstöðu til þess máls, hvort og þá hvernig eigi að horfa til þess hlutfalls. „Þó er ekki hægt annað en gjalda varhug við því hve hratt dregur í sundur með Íslandi og nágrannalöndunum, sbr. meðfylgjandi mynd,“ segir í umsögninni, en myndina má einnig sjá hér að neðan.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.