Framtíðin og sýklalyfin

01.02.2013

1186820_puzzle_time_2Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir er iðinn bloggari og hefur nýverið birt færslu um stöðu sýklalyfja í heiminum í dag.
 
Mannskepnan hefur stundum lag á að forgangsraða rangt. Um það höfum við fjallað áður hér hjá Frumtökum, til dæmis varðandi forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Vilhjálmur Ari bendir hinsvegar réttilega á að á meðan við fárumst yfir efnahagsástandi heimsins fá önnur alvarlegri vandamál litla athygli. Dæmi um þetta segir Vilhjálmur vera þá þróun sem vaxandi sýklalyfjaónæmi er.
 
Með tilkomu sýklalyfja eins og pensillíns náðu læknar tökum á einum helsta óvini mannsins, bakteríusýkingum. Enn í dag er talið að uppgötvun sýklalyfja hafi verið ein stórfenglegasta uppgötvun 20. aldarinnar.
 
Vilhjálmur Ari bendir á að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir í dag sé að miklu leyti tilkominn  vegna þess að sýklalyf hafa verið ofnotuð, meðal annars í landbúnaði og akuryrkju, gegn vægum bakteríusýkingum.
 
Vandinn er sá að með þessari þróun eykst faraldsfræðilegur hluti málsins og á einhverjum tímapunkti mun markaðurinn kalla eftir róttækri lausn. Fram að því eru hendur lyfjafyrirtækjanna að nokkru leyti bundnar því lítill grundvöllur er fyrir lyfjarannsóknir á þessu sviði á meðan ekki fæst nægilegt fé til rannsókna þar sem núverandi lausnir virka ennþá nægjanlega vel að mati heilbrigðisyfirvalda víða um heim.
 
Vilhjálmur Ari bendir líka á nauðsyn þess að tekið sé á ákveðnum skipulagsvanda í heilbrigðiskerfinu hér á landi en lausn hans gæti dregið úr vexti sýklalyfjaónæmis.
 
Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins Lundbeck á Íslandi, segir það rétt sem Vilhjálmur Ari bendir á og bætir við að frá sjónarhóli vísindamannsins megi ganga út frá því sem vísu að miðað við aðlögunarhæfni og tímgunarhraða baktería og örvera er viðbúið að lyf úreldist  samfara útbreiddri notkun. „Síðan má almennt segja um lyfjaþróun að hún stjórnast af áhuga kaupenda, sem oftast  eru opinberir aðilar, á nýjum meðferðum. Það er rétt hjá Vilhjálmi að lítið hafi gerst síðustu áratugi enda hefur mikið dregið úr áhuga lyfjakaupenda á þessum lyfjum. Sú staða sem er komin upp á sér þannig tvær meginskýringar. Annarsvegar eru lyfin að úreldast og þau úreldast hraðar ef þeim er ávísað mikið og ef fólk klárar ekki skammtana. Og hinsvegar hafa kaupendur  haft lítinn áhuga á að kaupa ný lyf sem dregur úr rannsóknum lyfjafyrirtækjanna í þessum málaflokki,“ segir Bjarni.
 
Bjarni bendir einnig á að á ráðherrafundi Norðurlandanna í júní 2012 hafi verið samþykkt að hefja aukið samstarf og þróun á sviði heilbrigðismála, meðal annars með tilraunum á nýjum meðferðum við sjúkdómum og nýjum lyfjarannsóknum.
 
Á heimsvísu virðist hinsvegar lítill vilji standa til fjárfestinga í sýklalyfjum þótt sum ríki leiti leiða til að styðja við lyfjaiðnaðinn til dæmis með skattaívilnunum fyrir lyfjafyrirtæki sem sinna sýklalyfjaþróun og annarra ívilnana fyrir lyf sem virka á sýkla sem þola hefðbundin sýklalyf.
 
Það er ljóst að ef takast á að bregðast við vandanum í tæka tíð er nauðsynlegt að breyta reglum vegna lyfjarannsókna á þessu sviði svo hægt sé að setja aukinn kraft í sýklalyfjarannsóknir.
 
Á meðan er ágætt að hafa það í huga að hreinlæti verður sífellt mikilvægara svo verjast megi þolnum sýklum – annars er framundan tími Darwins, eins og Vilhjálmur Ari orðar það.
 

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.