Frumtök opna mælaborð um lyfjamál í samstarfi við Datamarket

22.11.2012

graf09Eitt aðalhlutverk Frumtaka er að stuðla að dýpri þekkingu og meiri umræðu um lyfjamál á Íslandi. Liður í því er að halda úti virkri heimasíðu Frumtaka þar sem ýmsum sjónarmiðum er haldið á lofti þegar lyfjamál ber á góma. Auk þess má þar finna hagnýtar upplýsingar eins og siðareglur og ýmsar tölur og gögn.

Aðgengileg tölfræði skiptir miklu og með það að leiðarljósi hafa Frumtök opnað svokallað mælaborð Frumtaka í samstarfi við Datamarket. Markmiðið er að varpa ljósi á ýmsar lykiltölur í lyfjamálum Íslendinga.

Lyfjamál eru sífellt í umræðunni og of oft er umræðan um lyfjamál á villigötum. Dæmi um það er umræða um að lyf séu dýr á Íslandi, þrátt fyrir þá staðreynd að lyfjaverð er fyllilega sambærilegt, og jafnvel lægra, á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur hvað oftast saman við, Norðurlöndin.

Frumtök hafa ennfremur barist fært rök fyrir því að aðgengi landsmanna að lyfjum sé sem best og að litið sé á lyf sem fjárfestingu í heilsu fremur en kostnað heilbrigðiskerfisins. Mælaborð Frumtaka sýnir með skýrum tölulegum gögnum hvernig þessum málum er háttað í raun. Þar kemur meðal annars fram að lyfjaverð á Íslandi er jafnvel undir meðaltali Norðurlandanna. Einnig kemur þar fram að Ísland kemur í raun á eftir Noregi í fjölda lyfja með lægsta smásöluverð á Norðurlöndunum, sbr. Verðkannanir Lyfjagreiðslunefndar.

Einnig má á mælaborðinu sjá upplýsingar um nýskráningar og afskráningar á lyfjum á Íslandi en þar má sjá að afskráningum á lyfjum hefur fækkað frá árinu 2009 þótt annað megi halda af umfjöllun fjölmiðla síðustu vikur.

Öll gögn eru aðgengileg og heimilda er getið svo fjölmiðlar, stjórnmála- og embættismenn og aðrir, sem hagsmuna hafa að gæta af þessum málaflokki, geti skoðað tölurnar og sannreynt.

Með einföldum smelli er hægt fá ítarlegri upplýsingar á heimasíðu Datamarket en þar má takmarka val og breyta tímabilum til þess að skoða upplýsingar á þann hátt sem hentar hverjum og einum.

Með tilkomu mælaborðs Frumtaka má vænta þess að áhugi á lyfjamálum muni vaxa og að með skýrari upplýsingum muni það reynast auðveldara að marka skynsamlega stefnu í málaflokknum landsmönnum öllum til góða.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.