Ríkisendurskoðun ítrekar ábendingar

16.05.2014

rendiVelferðarráðuneytið þarf að mati Ríkisendurskoðunar að leita leiða til að bæta aðgang Íslendinga að stærri lyfjamörkuðum til að draga úr lyfjakostnaði ríkisins. Ennfremur þarf ráðuneytið að skilgreina heildstætt hvernig meta skuli áhrif og árangur af breyttri lyfjanotkun. Þetta er mat Ríkisendurskoðunar í ítrekuðum ábendingum til velferðarráðuneytisins sem birt er á vef stofnunarinnar 12. maí.

Í kjölfar ítrekunarinnar birti velferðarráðuneytið sjónarmið sín við ábendingum Ríkisendurskoðunar, þar sem tekið er undir með stofnuninni að nokkru leyti.  Þar segir að ráðuneytið og Landspítali hafi kannað möguleika á þátttöku í sameiginlegum útboðum með sjúkrahúsum á Norðurlöndum í því skyni að lækka kostnað ríkisins vegna lyfjakaupa. Með það að markmiði hafi lögum um opinber innkaup verið breytt. Nýju lögin (56/2011) séu þó þeim annmarka háð að mati ráðuneytisins og Landspítala að þau kveði á um sérstakt samkeppnismat áður, auk þess sem fylgja þurfi rökstuðningur innkaupastofnunar áður en slík innkaup eru heimiluð. Er því talið að samkeppnismatið geti virkað sem tæknileg hindrun og torveldað möguleika á sameiginlegum lyfjakaupum með öðrum sjúkrahúsum og útilokar ráðuneytið því ekki að ákvæðið verði endurskoðað.

Lyfjaverð hér lægra en meðalverð á Norðurlöndum

Af þessu tilefni er vert að halda þeirri staðreynd til haga að hið opinbera ákveður hámarksverð á lyfjum til notkunar á sjúkrahúsum, með því að ákveða að hæsta leyfilega verð á Íslandi sé hið sama og lægsta verð á hinum Norðurlöndunum. Staðreyndin er sú að lyfjaverð á Íslandi er í dag hið sama og meðalverð Norðurlandanna, sbr. reglulegar verðkannanir lyfjagreiðslunefndar.

Hætta á fákeppni og fækkun starfa

Endurskoði velferðarráðuneytið áðurnefnt ákvæði um samkeppnismat, sem nú er kveðið á um, mun breytingin að öllum líkindum leiða til þveröfugrar niðurstöðu en markmið breytingarinnar á að leiða til, vegna samkeppnishamlandi áhrifa fyrir íslensk fyrirtæki. Stærri útboð á Íslandi fara nú þegar fram á EES svæðinu, þannig að fyrirtækjum á því er frjálst að bjóða í viðskipti á Íslandi. Með þeim breytingum sem felast í hugmyndunum verða íslenskir aðilar hins vegar í raun útilokaðir frá því að taka þátt í útboðum á vegum hins opinbera á Íslandi, þar sem þeir munu ekki hafa bolmagn til þess að taka þátt í útboði í öðru ríki með tilheyrandi þjónustu við markað sem er margfalt stærri en sá íslenski. Bjóðendum muni því að öllum líkindum fækka nái hugmyndin fram að ganga.

Hafa haft alvarleg áhrif

Hvað varðar síðari ábendingu Ríkisendurskoðun, þá að skilgreina þurfi hvernig meta eigi áhrif og árangur af breyttri lyfjanotkun í kjölfar stjórnvaldsaðgerða til að draga úr lyfjakostnaði, er vitað er að slíkar breytingar geta haft aukaáhrif í för með sér og hugsanlega valdið auknum kostnaði annars staðar í heilbrigðiskerfinu eins og Ríkisendurskoðun bendir á. Velferðarráðuneytið segir landlæknisembættið hafa staðfest í bréfum til ráðuneytisins að sparnaðaraðgerðir undanfarinna ára hafi gengið vel og án sjáanlegra áfalla. Að auki bendir ráðuneytið á, máli sínu til stuðnings, að nýleg doktorsritgerð Guðrúnar Þorgilsdóttur lyfjafræðings, bendi til hins sama, að aðgerðirnar hafi haft lítil áhrif.

Af þessu tilefni vilja Frumtök benda á þá staðreynd að aðgerðirnar hafa í sumum tilfellum haft alvarlegar afleiðingar, m.a. á lyfjagjöf astma- og ofnæmissjúklinga, eins og sérfræðilæknar hafa bent á. Meðal þeirra er Unnur Steina Björnsdóttir ofnæmislæknir, sem gerði „Rannsókn á áhrifum breytinga sem urðu 1. janúar 2010 á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands á samsettum innöndunarlyfjum sem notuð eru við astma og langvinnri lungnateppu.“ Niðurstaða Unnar leiddi til þess að velferðarráðuneytið dró breytinguna til baka. Þá má einnig benda á rannsókn Sveinbjarnar Gizurarsonar, prófessors í lyfjafræði, sem einnig hefur bent á alvarleg áhrif breytinganna.

 

Nánari upplýsingar

 

Lyfjaverd

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.