Fullkomið gegnsæi í rannsóknum hjá GSK

17.10.2012

rannsoknirTilverugrundvöllur lyfjafyrirtækja er sá að finna leiðir til að meðhöndla sjúkdóma sem hrjá nútímamanninn. Augljóst er að lyfjafyrirtækjum tókst að rækja þetta hlutverk sitt afburða vel á 20. öldinni. Lyflækningar, og sá árangur sem hefur náðst í lýðheilsu þeirra vegna, er einn af merkustu bautasteinum síðustu aldar.

Árangurinn sést best á því að fjöldi sjúkdóma sem áður voru algengir eru ekki lengur sú ógn sem þeir voru, eða á svo miklu undanhaldi að vonir standa til um að það náist að útrýma þeim á næstu árum.

Til að mynda má nefna að bakteríusýking var ein helsta dánarorsökin í Bandaríkjunum fyrir árið 1920. Þá má benda á áhrif pensillíns eftir árið 1948, en með tilkomu þess varð algjör bylting í átt til bættrar heilsu almennings.

Í dag hefur hinsvegar vísindamönnum, læknum og lyfjafyrirtækjum tekist að ná tökum á flestum hættulegustu sjúkdómunum. Þó valda sjúkdómar á borð við HIV, malaríu og berkla meira manntjóni til samans en bólusótt gerði árið 1967 þegar byrjað var að uppræta hana.

Lyfjafyrirtæki hafa því verið að leita leiða til að hraða lyfjaþróun, meðal annars svo hægt sé að bregðast við svokölluðum ofurbakteríum, en ekki síður til að hægt sé að skrásetja nákvæmlega virkni lyfja og aukaverkanir.

Vegna þessa er nauðsynlegt að deila rannsóknarupplýsingum frá lyfjarannsóknum og GlaxoSmithKlein (GSK) er eitt þeirra fyrirtækja sem er leiðandi í því að deila rannsóknarupplýsingum og gera þær aðgengilegar.

Í síðustu viku tilkynnti GSK að fyrirtækið myndi styðja sérstaklega við rannsóknir á berklum og að rannsóknarteymum yrði gert kleift að skoða klínískar rannsóknir GSK til að hraða vísindalegri þekkingu og skilningi.
 
GSK hefur í þessu sambandi talað um „opna nýsköpun“  sem viðhorf sitt til rannsókna og þróunar á þessu sviði en með opinni nýsköpun mætti finna nýjar leiðir til að berjast við alvarlegustu heilbrigðisvandamál mannkyns.

Andrew Witty, forstjóri GSK, sagði af þessu tilefni að GSK, sem alþjóðlegt fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum, hefði ákveðnum skyldum að gegna og yrði að gera allt sem hægt væri til að nýta getu sína, þekkingu og kunnáttu til að takast á við alvarlega sjúkdóma. Witty sagði vandann hinsvegar vera þann að flækjustig og magn gagna væri slíkt að GSK gæti ekki lengur starfað einangrað að lausninni.

Það má segja að þessi nálgun GSK sé spennandi leið til að takast á við sjúkdóma nútímans og athyglisvert verður að sjá útkomuna þegar vísindamenn geta deilt upplýsingum í ríkari mæli en til þessa hefur tíðkast.
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á www.gsk.com

 

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.