Fyrirlestur dr. Michael Porter í Reykjavík um endurskipulagningu heilbrigðiskerfa

01.11.2010
Fyrirlestur dr. Michael Porter um hvernig hægt er að endurskipuleggja heilbrigðiskerfi í takt við þarfir 21. aldarinnar var mjög vel sóttur en salur Arion banka sem tekur 180 manns í sæti var fullsetinn.

Glærusýningu með fyrirlestri dr. Michael Porters um endurskipulagningu heilbrigðiskerfa má nálgast hérma

Það voru Frumtök og Arion banki, í samstarfi við Gekon ehf., sem héldu morgunfund um heilbrigðismál með dr. Michael Porter, prófessor við Harvard Business School mánudaginn 1. nóvember, og fyrrum Landlæknir Sigurður Guðmundsson, prófessor og deildarforseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum.

Dr. Michael Porter er fæddur í Michigan árið 1947.
Hann lauk prófi í vélaverkfræði og geimvísindum frá Princeton háskóla árið 1967, en sneri sér síðan að viðskipta‐ og hagfræðinámi og lauk doktorsprófi frá Harvard árið 1973. Harvard hefur verið vinnustaður hans síðan.

Sigurður Guðmundsson kynnti Porter og sagði um leið að aldrei hefði verið nauðsynlegra að endurskoða skipulag heilbrigðiskerfisins en nú, enda standa Íslendingar frammi fyrir gríðarlegri uppstokkun vegna skulda þjóðarbúsins.

Fyrirlestur Michael Porters er því vel tímasettur þar sem Porter færir fyrir því rök að ekki megi ýta kostnaði í heilbrigðiskerfinu á milli spítala, á milli deilda, á milli ráðuneyta heldur beri að skoða öll úrræði heilbrigðiskerfisins út frá hagsmunum sjúklinga. Aðeins þannig muni nást fram raunverulegur sparnaður.

Fyrirlesturinn í fullri lengd hjá Frumtökum
Fyrirlestur dr. Michael Porter er aðgengilegur öllum í fullri lengd hér á heimasíðu Frumtaka. Myndbandið er 1 klst og 38 mínútur og því getur tekið smá stund að hlaða því niður eða bíða eftir að það hlaðist inn ef á að horfa á það strax.

Við höfum einnig tekið saman helstu punkta Porters svo hægt sé að rata fram og aftur um fyrirlesturinn eftir efnistökum.

Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka hefur fyrirlesturinn með fáeinum orðum um Michael Porter.

2:20 Sigurður Guðmundsson fundarstjóri kynnir Michael Porter sem einn helsta fræðimann stjórnunarfræða og mælir með grein Porters um ”Value based healthcare delivery”.

5:15 Michael Porter hefur fyrirlesturinn.

9:15 Porter segir flest lönd stefna að því að allir njóti þjónustu heilbrigðiskerfisins án tilliti til tekna eða auðs. Porter segir það hafa tekist vel. Mikið hefur verið reynt að ná tökum á kostnaði en það hefur hinsvegar mistekist. Því meira sem reynt er að koma böndum á kostnað því meira eykst hann.

10:20 Kjarni vandans er að búa til kerfi sem hámarkar virði þjónustunnar frá sjónarhóli sjúklinga. Það er ekki nóg að búa til aðgang að kerfinu, heldur verður að skapa virði fyrir sjúklinga.

16:25 Hvernig notum við samkeppni eða markaðinn til að auka virði þjónustunnar fyrir sjúklinga? Porter segir fólk ósammála um þetta en það sé ekki meginmálið. Samkeppni sé hinsvegar spurning um val og það að sjúklingar hafi val sé gott. En samkeppnin verður að vera af réttu tagi. Í Bandaríkjunum hefur samkeppni t.d. gert illt verra og virði þjónustunnar fyrir sjúklinga hefur minnkað. Samkeppnin felst í því að koma kostnaði yfir á aðra í stað þess að auka virði þjónustunnar fyrir sjúklinga.

19:20 Virði er eina takmarkið sem allir geta verið sammála um sem mælikvarða, segir Porter, og því ættu breytingar á heilbrigðiskerfi að miða að því að auka virði þjónustunnar fyrir sjúklinga og þannig muni nást meiri árangur.

21:35 Það verður að meta kostnað í kerfinu m.t.t. allrar þjónustu sem veitt er. Porter segir að algengt sé að árangur sé ekki mældur í heilbrigðiskerfum. Hinsvegar snúist þetta um heildarkostnaðurinn við að sinna sjúklingi yfir langan tíma og á öllum mögulegum sviðum. Kostnaður einstakra þjónustuþátta skiptir ekki máli.

27:25 Porter talar um sex mikilvægustu sviðin sem þarf að skoða til að ná árangri í heilbrigðiskerfum.

35:10 Skipulag heilbrigðisþjónustu þar sem hver einstök eining á að veita breiða þjónustu án þess að ná fram sérhæfingu út frá þörfum sjúklinga er kerfið eins og það er í dag. Porter tók dæmi af mígrenimeðferð í Þýskalandi þar sem sjúklingar geta þurft að fara á milli stofnana til að finna lausn á sínum vanda. Með því að sníða kerfið að þörf sjúklingsins þarf hann ekki lengur að fara á milli stofnana. Núverandi kerfi býður auk þess upp á gríðarlega háan stjórnunarkostnað.

55:30 Nýja kerfið sem tekur á mígrenivanda er auðvelt í stjórnun segir Porter og útskýrir.

56:00 Það þarf hinsvegar ákveðinn lágmarksfjölda sjúklinga innan hvers sjúkdóms til þess að geta sinnt þeim. Slík vandamál eru ýktari í litlum löndum eins og Íslandi. Porter tekur dæmi af Svíþjóð þegar hann talar um fjölda sjúklinga eða ”patient volume”.

1:02:25 ”Ef það væri eitt sem ég gæti gert, ef ég væri konungur kerfisins, þá væri það að mæla útkomu kerfisins” segir Porter. Hve vel nær sjúklingurinn sér, hve langan tíma tók það fyrir sjúklinginn að ná bata, hve flókin og erfið var meðferðin o.s.frv. Porter segir mikið hægt að fá úr þessum upplýsingum og þær auki hagkvæmni kerfisins.

1:14:36 Porter opnar fyrir spurningar.

1:14:47 Sigurður Guðmundsson segir lækna sníða kerfið eftir eigin þörfum samkvæmt Porter en ekki samkvæmt þörfum sjúklinga.

1:15:35 Spurning úr sal varðandi forvarnir.

1:23:00 Spurning úr sal um áhrif endurskipulagningarinnar á lífsgæði og hvað þurfi að gera til að stíga skrefin sex. Porter svarar m.a. með dæminu um mígrenivandamálið í Þýskalandi þar sem tilfellum fækkaði um 25%. Porter minnist einnig á ”cost accounting” og segir að hægt eigi að vera að draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfi um 50% með því að skipuleggja heilbrigðiskerfi betur. Ísland þurfi hinsvegar að finna nýjar lausnir til að ná slíkum árangri vegna smæðar sinnar en mikil tækifæri séu þó hér á landi.

1:26:20 Spurning úr sal um meðferð krónískra sjúkdóma m.t.t. meðferðar.

1:31:30 Síðasta spurning úr sal um tengsl mataræðis og heilsu.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.