Gætum fengið lægsta verðið í bakið

28.09.2017

Lyfjagreiðslunefnd ákvarðar hámarksverð lyfja á Íslandi. Verðið tekur mið af verði lyfja í viðmiðunarlöndunum Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Samkvæmt vinnureglum nefndarinnar tekur heildsöluverð sjúkrahúslyfja (svokallaðra S-merktra lyfja) ávallt mið af lægsta verðinu í viðmiðunarlöndunum. Öll önnur lyf, frumlyf og samheitalyf taka mið af meðalverði lyfjanna í löndunum fjórum og er verðið hér aldrei hærra en það.

Þá reiknar nefndin mánaðarlega út svokallað lyfjaverðskrárgengi, sem er meðaltal gengisþróunar krónunnar gagnvart innkaupsgjaldmiðlinum í mánuðinum á undan. Af þessu leiðir að verð lyfja á Íslandi er með því lægsta sem gerist á Norðurlöndum.

Í stjórnmálaályktun Bjartrar framtíðar á ársfundi flokksins í byrjun mánaðarins er vikið að verði lyfja og talið mikilvægt að styrkja innkaup og samningsstöðu um verð lyfja í samstarfi við Norðurlöndin og önnur Evrópulönd. Formaður flokksins, Óttarr Proppé, er heilbrigðisráðherra í fráfarandi ríkisstjórn.

Um vangaveltur á borð við þessar hefur nokkuð verið fjallað á vettvangi Frumtaka og bent á að frekari upplýsingar skorti um bæði áhrif og ágæti þess að taka þátt í sameiginlegum útboðum milli landa um lyfjakaup. Leiðin hefur verið fær um árabil og segir líkast til sína sögu að Landsspítalinn hefur til þessa ekki kosið að fara slíka leið í innkaupum á lyfjum. Enda er fleira undir en lyfjaverðið sjálft. Heilbrigðisstofnanir þurfa ýmsa þjónustu í tengslum við lyfin, svo sem vegna merkinga, birgðahalds og fleiri þátta.

„Umhverfi lyfjamála er afar flókið og lýtur opinberri stýringu á nær öllum sviðum,“ bendir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, á og bætir við að þótt í fyrstu gæti virst ágætisregla hjá hinu opinbera að miða ávallt við lægsta verð lyfja á Norðurlöndum þegar teknar eru ákvarðanir um lyf hér, þá kunni slík regla að hafa ákveðna hættu í för með sér. Það sé vegna þess að fleiri lönd en Ísland noti þá aðferð að færa verð frá nokkrum löndum í „verðviðmiðunarkörfu“ sem stuðst sé við þegar teknar eru ákvarðanir um lyfjaverð á hverjum stað.

„Dæmi eru um að lyfjaverð á Íslandi hafi ratað í slíkar körfur annara ríkja og af því hér er miðað við lægsta verð á Norðurlöndum þá kann það að stuðla að lækkun lyfjaverðs annars staðar.“ Vegna þess hve Ísland er lítill markaður þá gæti við þetta orðið til tregða til að skrá hér ný lyf, vegna þess að verðskráningin ein getur haft hlutfallslega mikil áhrif á verð í öðrum löndum.

„Enn sem komið er höfum við ekki dæmi um að lyf fáist ekki skráð hér af þessum orsökum, en þetta er nokkuð sem vert er að hafa í huga og kann að vera ástæða til að endurskoða þá aðferðafræði sem beitt er við ákvörðun um lyfjaverð hér,“ segir Jakob. Áður var alla jafna miðað við að hámarksverð lyfja hér væri ekki hærra en næmi meðalverði á Norðurlöndum, en eftir gengisfall krónunnar í hruninu hafi verið tekin ákvörðun um að miða fremur við að lægsta verðið á Norðurlöndum yrði hámarksverð hér. „Og það gæti komið í bakið á okkur þegar fram í sækir.“ Jakob segir Frumtök vilja stuðla að opinni umræðu og hafa gott samstarf við stjórnvöld sem miði að því að bæta umgjörð lyfjamála og styðja við íslenskt heilbrigðiskerfi.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.