Google tekur þátt í baráttunni gegn fölsuðum lyfjum

27.09.2010
Markaður með fölsuð lyf er stórt vandamál í Evrópu og víðar. Ráðist hefur verið í ýmsar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu falsaðra lyfja eins og við höfum sagt frá hér á síðunni, en betur má ef duga skal.

Þegar kemur að sölu á lyfjum er annars vegar til lögleg keðja, frá framleiðanda til heildsala til lyfjasala til sjúklings, og hins vegar er til ólögleg keðja sem fer framhjá þeirri löglegu og þar með framhjá þeim öryggisráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að forðast falsanir. Vandamálin skjóta upp kollinum á báðum leiðum. 

Þeim sem selja fölsuð lyf hefur tekist að komast inn í löglegu keðjuna, sem er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál því það ógnar öryggi sjúklinga og dregur úr trausti almennings á framleiðslukeðjunni.

Ein aðgerðanna sem gripið hefur verið til er merking lyfja með sérstöku auðkenni þannig að rekja megi ófalsaða vöru allt frá framleiðanda til sjúklings. 


Glíma þarf við ólöglegu leiðina á annan hátt en þá löglegu, sérstaklega við ólöglega lyfjasölu á Netinu, enda hugsa flestir um verslun á Netinu þegar talað er um fölsuð lyf.

Erfitt að finna sökudólgana
Atlaga gegn verslun með ólögleg lyf á Netinu er sannarlega áskorun. Það eru fjölmörg lögleg apótek á Netinu, þótt þau hafi ekki náð mikilli útbreiðslu í Evrópu, og svo eru ótal ólöglegar lyfjasölur á Netinu. Flestir kannast við það að hafa fengið ruslpóst þar sem þeim eru boðin ódýr lyf til kaups.

Það er ómögulegt að segja til um hve há prósenta lyfjasölu á Netinu er ólögleg, en af fjölgun auglýsinga að dæma þá er hún nokkuð há. Það er hreinlega ómögulegt að fylgjast með ólöglegri lyfjasölu á sama hátt og þeirri löglegu, þar sem staðið er að framleiðslu og dreifingu á afar ólíkan hátt.

Við erfiðan andstæðing að etja
Lyfjaframleiðendur vilja að sjálfsögðu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að berjast gegn sölu á fölsuðum lyfjum en slíkt krefst gríðarlegs átaks og útgjalda frá mörgum hliðum.

Það er því sérstakt ánægjuefni að Google birti nýlega færslu á bloggi sínu um að málarekstur væri hafinn gegn ólöglegum lyfjasölum sem auglýsa á Google vefnum. Það er gegn notendareglum Google og þeir sem það gera verða því lögsóttir.

Ennfremur segir í færslunni að ólöglegar lyfjaverslanir séu slæmar fyrir notendur síðunnar, slæmar fyrir löglegar lyfjaverslanir og slæmar fyrir öll viðskipti á Netinu. Því muni Google halda áfram að verja fé og tíma í að reyna að koma í veg fyrir þessa ólöglegu iðju.

Google stígur þarna mikilvægt skref í rétta átt í baráttunni gegn sölu ólöglegra lyfja á Netinu.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.