Gott aðgengi að lyfjum er þjóðarnauðsyn

01.03.2013

1017573_green_lightUmbrotatímar undanfarinna ára færa með sér töluverðar breytingar. Á Íslandi, jafnt sem annars staðar í Evrópu, eru uppi miklar áhyggjur af krónískum sjúkdómum sem í auknu mæli herja á langlífa Evrópubúa.

Frumtök hafa beitt sér fyrir því að dýpka umræðuna um lyf með það fyrir augum að hvetja til aukinnar þátttöku ólíkra hópa hagaðila sem allir eiga sameiginlega hagsmuni í tengslum við aðgengi að lyfjum.

Innan Evrópusambandsins og systursamtaka Frumtaka fer sambærileg umræða fram í takt við vöxt heilbrigðiskerfisins. Umræðan er drifin af breiðum hópi hagsmunaaðila, ráðamönnum og stjórnmálamönnum, vinnuveitendum, starfsfólki og forsvarsmönnum almannatrygginga og sjúklingasamtaka, sem allir vinna saman í þá átt að deila hugmyndum og þekkingu svo mæta megi þeim vanda sem Vesturlandabúar standa frammi fyrir.

Lyfjaiðnaðurinn skoðar marga aðra þætti eins og svörun sjúklinga við meðferð, t.d. sýklalyfjameðferð sem er vaxandi vandamál. Það er stundum talað um að fjármálalæsi sé mikilvægt í kjölfar efnahagssamdráttarins hér á landi og að sama skapi hlýtur að vera ljóst að heilbrigðislæsi er einnig mikilvægt.

Þörf á að endurskilgreina stöðu sjúklinga
Frumtök hafa fjallað um viðhorfið til lyfja og bent á að rangt sé að tala um lyfjakostnað. Nær sé að tala um fjárfestingu í lyfjum. Það er slík hugarfarsbreyting sem mun skipta máli í framtíðinni því um leið og litið er á lyf, og aðra þjónustu heilbrigðiskerfisins, sem fjárfestingu er hægt að endurskilgreina stöðu sjúklinga í samfélaginu. Með öðrum orðum þá ætti stjórnvöldum að vera ljóst að þeirra hlutverk er að fjárfesta í heilsu þegnanna – öllu samfélaginu til góðs.

Fullkomið aðgengi að nauðsynlegum lyfjum er hagfelld leið til að leiða þessar breytingar. Nýtt greiðsluþátttökukerfi, sem taka mun gildi þann 5. maí næstkomandi, er jákvætt skref til jöfnunar réttinda. Það á auðvitað að vera svo að greiðsluþátttaka tengist þeim sem notar lyfin fremur en lyfinu sjálfu.

Frumtök styðja nýja greiðsluþátttökukerfið í öllum meginatriðum.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.