Greiðsluþátttaka hefur aukist síðustu ár

08.02.2017

Greiðsluþátttaka almennings í almennum lyfjum hefur aukist um rúm 17 prósent síðasta áratug, samkvæmt tölum frá Sjúkratryggingum Íslands. Árið 2007 nam greiðsluþátttakan tæpum 36 prósentum, en á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs nam hlutfall notendagreiðslna í lyfjakostnaði fyrir almenn lyf 42 prósentum.

Þetta kemur fram í samantekt Frumtaka á tölulegum staðreyndum tengdum lyfjamálum, en samtökin hafa nú í þriðja sinn staðið að slíkri samantekt.

Tölurnar sýna líka að hlutur lyfja í útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála hefur farið minnkandi síðustu ár vegna styrkingar krónunnar. „Og þá stenst náttúrlega ekki skoðun að tala um að lyf séu dýr á sama tíma og hlutur þeirra í útgjöldum ríkisins dregst saman og aukinn hluti kostnaðarins er borinn af almenningi,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Stjórnvöld virðist hins vegar vilja vinda ofan af þessari þróun. „Og það verður spennandi að sjá útfærslur þegar kemur að lyfjamálum.“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra var tekinn tali á Morgunvaktinni á Rás 1 í gær, 7. febrúar, og meðal annars spurður út í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að stefnt skuli að því að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga. Hann sagði að skýrsla ASÍ frá því fyrir einu eða tveimur árum, sem sýnt hafi að kostnaðarþátttaka íslenskra sjúklinga hafi frá um 1990 farið úr 7 til 8 prósentum upp í 17 til 18 prósent, hafi komið á óvart og vakið marga til umhugsunar um breytingar sem smám saman hefðu átt sér stað.

Um leið benti Óttarr á að á síðasta þingi hafi, með stuðningi allra flokka, verið unnið frumvarp um að jafna heilbrigðiskostnað og setja á hann þak. „Þetta kerfi er ekki komið í gagnið enn þá, hreinlega vegna þess að tekið hefur tíma tæknilega að innleiða það, í stofnanirnar. Þetta þarf að komast í öll tölvukerfi og svoleiðis, en það er gert ráð fyrir því að innleiða það fyrir 1. maí.“ Þeir sem verst hafi farið út úr kerfinu til þessa, svo sem krabbameinssjúklingar sem mikið hafi þurft að greiða með sér, komi til með að sjá umtalsvert mikinn mun.“ 

Vilji sé til að skrúfa aukna kostnaðarþátttöku til baka. „Auðvitað viljum við að kostnaðarþátttaka sjúklinga sé sem allra minnst,“ sagði Óttarr og kvað næstu skref felast í að koma saman áætlun um hvernig á næstu árum verði í skrefum dregið úr kostnaði sjúklinga, ef til vill ekki niður í núll, en „niður að því að hafi ekki stór áhrif á persónulegan fjárhag sjúklinga“.

Heilbrigðisráðherra var jafnframt spurður hvað það þýddi að ríkisstjórnin segðist í stefnuyfirlýsingu sinni ætla að setja heilbrigðismál í forgang. „Það þýðir þá auðvitað að við munum reyna að beina fjármagni í auknum mæli inn í heilbrigðismálin og vinna skipulega að uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu,“ sagði hann. Málaflokkurinn væri stór og kerfið víðfemt.

Hann vildi hins vegar ekkert fullyrða um upphæðir á meðan unnið væri að ríkisfjármálaáætlun til fimm ára sem ljúka ætti fyrir 1. apríl. Fjármagn til málaflokksins hafi hins vegar þegar verið aukið, svo sem á fjárlögum 2017. „Það sem hefur komið inn í málaflokkinn síðustu misseri hefur fyrst og fremst farið í launahækkanir til heilbrigðisstétta, sem ég held að allir séu sammála um að hafi verið aðgerð sem þyrfti að gera. Það er verið að bæta í uppbyggingu nýja Landspítalans og við erum að sjá núna 2017 og 2018 fyrstu stóru fjárveitingarnar í þá uppbyggingu,“ sagði Óttarr í viðtalinu við Morgunvaktina.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.