Greiðsluþátttaka astamlyfja breyttist um áramót

05.01.2010
1. janúar tóku gildi nýjar reglur um greiðsluþátttöku hins opinbera í verði astamlyfja, en samamtekt yfir skilyrta greiðsluþátttöku er að finna hér á veg Lyfjagreiðslunefndar. Í Morgunblaðinu, 4. janúar, er ágæt frétt Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur um breytingarnar sem urðu nú um áramótin sem við leyfum okkur að endurbirta hér:

TVÖFALDUR skammtur af algengu astmapústi hækkaði um áramót úr 1.000 krónum í 19.000 krónur, samkvæmt upplýsingum sem faðir drengs með astma fékk í apóteki á síðustu dögum ársins. Breytingar urðu á niðurgreiðslureglum Tryggingastofnunar ríkisins vegna astmalyfja 1. janúar en læknar geta sótt um lyfjaskírteini fyrir sjúklinga til að niðurgreiðslur vegna lyfjanna haldist.

Sigurður Hjörleifsson leysti út tvöfaldan skammt af astmapústi fyrir fjögurra ára son sinn laust fyrir áramót, en sá stutti hefur glímt við astma frá fæðingu. Við höfum hingað til borgað 1.000 krónur fyrir hylkin tvö en núna benti konan í apótekinu mér á að ég væri heppinn að koma svona snemma því eftir áramótin þyrfti ég að greiða 19.000 krónur fyrir sama skammt. Þetta er venjulegt astmapúst sem krökkum er gefið, Seretide, en algengt er að það fari tveir svona staukar í mánuði hjá þeim sem nota þetta reglulega.

Ekki til samheitalyf
Aðalheiður Pálmadóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands segir breytingar á niðurgreiðslum vegna astmalyfja nú vera lið í aðgerðum stjórnvalda þar sem fólki er beint að ódýrari lyfjum með sömu virkni. Hins vegar er það erfitt þegar kemur að astmalyfjunum því þar eru ekki til samheitalyf. Um er að ræða samsetta lyfjameðferð, þar sem bæði berkjuvíkkandi og bólgueyðandi lyf eru gefin saman í einu pústi. Í þessu tilfelli erum við því að tala um mismunandi meðferðir annars vegar samsetta og hins vegar með tveimur lyfjum sem eru ódýrari hvort fyrir sig.
Hún segir Lyfjafræðingafélagið hafa gagnrýnt að draga skuli úr því sem hún kallar nútímameðferð við astma. Hins vegar eiga þeir, sem hafa verið greindir með astma, að geta beðið lækninn sinn um að sækja um lyfjaskírteini fyrir sig og þá á greiðsluþátttakan vegna þessarra lyfja að vera sú sama og áður. Það sé því undir lækninum komið hvort viðkomandi þurfi að taka tvö lyf í staðinn fyrir eitt í framhaldinu en Tryggingastofnun hafi tilgreint nokkuð nákvæmlega hvaða læknisfræðilegu skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að veita slíkt lyfjaskírteini.

Aðalheiður telur að kynningu á breytingunum nú hafi verið ábótavant og því komi þær sjálfsagt mörgum notendum lyfjanna á óvart. Hins vegar gildi lyfseðlar, sem gefnir voru út fyrir áramót, í þrjá mánuði með fullri niðurgreiðslu.

Í hnotskurn
» Á árinu 2009 var reglum breytt vegna blóðfitulækkandi lyfja, magalyfja, blóðþrýstingslyfja og beinþynningarlyfja.
» Aðalheiður bendir á að hægt er að fá upplýsingar um breytingar á greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar í næsta apóteki.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.