Greiðsluþátttökukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu, ekki bara lyf

19.09.2014

pblEins og ljóst hefur verið um árabil er algengt orðið að langveikir hér á landi greiði hundruð þúsunda króna úr eigin vasa vegna kostnaðar af völdum veikinda sinna, bæði vegna kaupa á lífsnauðsynlegum lyfjum og reglulegra heimsókna til læknis vegna eftirlits, myndataka og annarra meðferða sem veikindunum fylgja. Komið hefur í ljós að stór hluti landsmanna frestaði læknisþjónustu á síðasta ári vegna kostnaðar.

Pétur Blöndal alþingismaður, formaður nefndar um nýtt samræmt greiðslukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu, vill einfalda kerfið með þeimn hætti að þeir sem séu sjaldan eða lítið veikir greiði töluvert meira en þeir geri í dag, en langveikir, sá hópur sem standi í dag undir miklum, langvarandi og sligandi kostnaði, greiði á hinn bóginn mun minna en nú og þak verði sett á allan kostnað þeirra. Undir þetta markmið taka Frumtök heilshugar.

Nýlega lýsti Pétur því hversu gríðarlega flókin greiðsluþátttaka ríkisins væri í heilbrigðisþjónustunni. Sagði hann að líklega væru á milli 30-40 kerfi í gangi og afar erfitt væri fyrir fólk að átta sig á hver réttur þess væri eða hvert það eigi að leita. Pétur segir nefndina vera að skoða möguleika þess að taka upp eitt kerfi sem taki á öllum tryggðum kostnaði, hvort sem er vegna rannsókna, læknisheimsókna, meðhöndlunar lyfja og svo framvegis, og vill Pétur að fólk verði tryggt fyrir þessum kostnaði upp að ákveðnu marki. Þessar hugmyndir eru mjög í samræmi við áherslur Frumtaka.

Frumtök taka mjög undir þessi sjónarmið enda hafa samtökin lýst þessu sjónarmiði sem sinni skoðun; að innleiða beri greiðsluþátttökukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu, þar með talið lækningatæki, en ekki eingöngu fyrir lyf. Frumtök telja mikilvægt að einfalda núverandi kerfi sem friður geti skapast um. Í núverandi kerfi er ekkert sem kemur í veg fyrir himinhá útgjöld einstaklinga vegna útgjalda til heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er því að nýtt kerfi saumi fyrir þá fjárhagslegu bagga sem núverandi kerfi felur enn í sér.

Núverandi lyfjagreiðslukerfi byggist á 12 mánaða tímabili að norrænni fyrirmynd. Tímabilið hefst við fyrstu lyfjakaup og verður að hámarki um 70 þúsund krónur á 12 mánuðum, en þá hefst niðurgreiðsla ríkisins. Í viðtali við Ríkisútvarpið sl. þriðjudag sagði Pétur að skoða ætti fljótandi kerfi sem byggðist á hámarki á hverju 6 mánaða tímabili. Það myndi jafna kostnaðinn og draga úr þeim fjárhagslegu höggum sem fólk verði fyrir í kjölfar sjúkdómsgreiningar. Pétur hefur einnig lýst þeirri skoðun sinni að nýtt þak verði hærra en núverandi 70 þúsund króna þak og er það í samræmi við það yfirlýsta markmið um hærri álögur á þá sem sjaldan eða lítið verði veikið á sama tíma og þak verði sett á langveika.

 

Nánari upplýsingar

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.