Groundhog day eða Déjà vu

23.03.2017

Tuttugasta febrúar síðastliðinn birtist á vef velferðarráðuneytisins frétt þess efnis að ríkisstjórnin hefði á fundi sínum nokkrum dögum fyrr samþykkt tillögu um að fela ráðherrum fjármála- og efnahagsmála og svo heilbrigðismála að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári. Segja má að þarna endurtaki sagan sig því staðan hefur verið uppi á hverju ári síðustu ár. „Raunar endurtekur hún sig svo rækilega að nærri samhljóða frétt birtist á sama vettvangi ríkisstjórnarinnar næstum því nákvæmlega ári fyrr, eða 19. febrúar 2016,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Skemmst er frá því að segja að enn er beðið niðurstöðu þessarar vinnu sem tilkynnt var um í febrúar síðastliðnum og enn uppi óvissa um hvort staðið verði við stór orð um að þjónustu íslensks heilbrigðiskerfis standi ekki að baki þeirri þjónustu sem boðið er upp á í nágrannalöndunum.

Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, fjallaði um stöðuna í grein í Fréttablaðinu 16. mars síðastliðinn. Þar rifjar hún upp kosningaloforð Bjartrar framtíðar í bréfi til Krafts um að flokkurinn ætli að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til heilbrigðismála „á þá lund að hér verði rekið heilbrigðiskerfi sem við getum verið stolt af“ og að „Björt framtíð myndi ekki láta það gerast á sinni vakt að krabbameinssjúkt fólk fengi ekki bestu lyf sem völ væri á vegna kvótakerfis“.

Staðreyndin er hins vegar að Ísland er eftirbátur Norðurlanda þegar kemur að innleiðingu nýrra krabbameinslyfja, eins og áður hefur verið bent á.

Ragnheiði brá við tilsvör heilbrigðisráðherra í umræðum um málið á Alþingi undir lok síðasta mánaðar um að ekki væri sjálfgefið að lyf sem ekki byðust hér á landi væru endilega þau bestu og að Íslendingar þyrftu ekki endilega alltaf að vera fyrstir með lyfin. „Það svar er ekki boðlegt þeim sem nú berjast við krabbamein. Þeir eiga rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni og þar af leiðandi bestu hugsanlegum lyfjum. Rök þess eðlis að hann sé bundinn af fjárlögum standast ekki og ganga fráleitt lengra en 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika,“ segir í grein Ragnheiðar.

„Augljóst hlýtur í það minnsta að vera að pottur er brotinn þegar á vef ráðuneytisins birtist árvisst „deja vu“ eða „Groundhog Day“ um að vanáætlun útgjalda ríkisins til lyfjamála hafi verið slík að skipa þurfi sérstaka ráðherranefnd til að rétta kúrsinn. Mætti kannski biðja um að kerfið yrði lagað þannig, um leið og áætlanagerð vegna ætlaðra útgjalda yrði færð að raunveruleikanum, að ráð mætti gera fyrir sveiflum í útgjöldum,“ segir Jakob Falur og bendir á að fordæmi séu fyrir slíku úr öðrum löndum, svo sem með stofnun sérstakra sjóða. „Þannig mætti slá tvær flugur í einu höggi, tryggja hér sjúkum meðferð á pari við þá sem boðið er upp á í nágrannalöndunum, og losna við árvissa tímafreka vinnu við að stoppa í göt sem til eru komin af lélegri áætlanagerð.“

Hér að neðan má sjá skjáskot af umræddum fréttum velferðarráðuneytisins frá þessu ári og því síðasta.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.