Haldið til haga

06.10.2016

Umhverfi lyfjamála er um margt flókið og fyrir kemur að ranghugmyndir um hvernig málum sé háttað nái flugi. Vera má að slíkt sé eðlilegt vegna flækjustigsins, en staðreyndin er hins vegar sú að velflestir þættir lúta beinni opinberri stýringu. Á það jafnt við um verðlagningu og vel flest er snýr að markaðsleyfi einstaka lyfs.

Fyrir helgi átti sér stað umræða á Alþingi í tengslum við frumvarp til laga um opinber innkaup þar sem því var haldið fram í ræðustól að lyfjafyrirtæki haldi uppi háu lyfjaverði hér á landi með aðgangshindrunum.

„Ég hef sagt það áður í þessum stól að ekkert hefur komið mér jafn mikið á óvart í mínum störfum, og hefur þó margt komið mér á óvart eins og til dæmis hér í þinginu, og það hvernig íslensku lyfjafyrirtækin passa upp á það að íslenski markaðurinn sé einn og lítill þannig að þau geti haldið hér uppi allt of háu lyfjaverði,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir, þingkona Samfylkingarinnar í umræðunni.

Vandséð er hins vegar hvernig lyfjafyrirtæki ættu að geta hagað sér með þessum hætti. Staðreyndin er að lyfjaverð á Íslandi er ákveðið samkvæmt reglugerð og hefur verið staðfest, svo sem af Ríkisendurskoðun að það er ekki hátt hér á landi.

Hér er sá háttur hafður á að Lyfjagreiðslunefnd ákvarðar leyfilegt hámarksverð lyfja, en nefndina skipa fulltrúar fjármálaráðuneytis, Embættis landlæknis, Lyfjastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands. Heilbrigðisráðherra skipar svo fimmta nefndarmanninn, sem er formaður nefndarinnar.

Heildsöluverð frumlyfja, annara en S-merktra, ákvarðar Lyfjagreiðslunefnd með hliðsjón af meðalverði þeirra í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. S-merktu lyfin taka hins vegar mið af lægsta verði sem er að finna í hverju þessara landa, oft Noregi.

Verð lyfja á Íslandi er því ýmist sambærilegt við það sem að jafnaði gerist á hinum Norðurlöndunum, eða jafnlágt lægsta lyfjaverði á Norðurlöndum. Síðan færist verðið til eftir gengisþróun krónunnar hverju sinni, líkt og fjallað hefur verið um á þessum vettvangi.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.