Hart barist gegn smitsjúkdómum

16.09.2010
Maðurinn hefur barist gegn smitsjúkdómum í hundruð ára og stríðið stendur enn. Bakteríur eru nefnilega ‘gáfaðar’ og þróa með sér ónæmi fyrir lyfjunum sem ætlað er að útrýma þeim. Þess vegna finnast smitsjúkdómar í dag sem auðvelt var að lækna fyrir tuttugu árum, en sem erfitt er að ráða niðurlögum í dag vegna ónæmis bakteríanna.

Samtök lyfjaframleiðenda í Bandaríkjunum (PhRMA) vinna að því hörðum höndum að þróa lyf gegn þessum ofurbakteríum og í nýrri skýrslu samtakanna segir að nú séu 395 lyf gegn smitsjúkdómum á seinni stigum þróunar.

Fyrir 1920 var bakteríusýking helsta dánarorsök í Bandaríkjunum og enn þann dag í dag látast 9.5 milljón manna í heiminum öllum af völdum smitsjúkdóma.

Svokallaðar ofurbakteríur eru sérstakt áhyggjuefni í dag, en þær hafa stökkbreyst og eru orðnar ónæmar fyrir flestum fáanlegum sýklalyfjum. Meðal lyfja sem eru í þróun eru lyf gegn stökkbreyttum berklabakteríum og klasakokkum sem valda bólgum og ígerð.

„Smitsjúkdómar valda enn mikilli þjáningu og baráttan gegn þeim er ein sú mikilvægasta sem maðurinn stendur frammi fyrir,“ segir framkvæmdastjóri PhRMA, John J. Castellani. „Mörgum sjúkdómum, sem áður voru banvænir, hefur nánast verið útrýmt, en betur má ef duga skal.“

Neyðarástand vegna smitsjúkdóma
Sumir sjúkdómanna sem þessum nýju lyfjum er ætlað að vinna á, hrjá mestmegnis fólk í þróunarríkjunum, en aðrir herja á fólk um allan heim. Sem dæmi má nefna að á 45 sekúndna fresti deyr barn í Afríku af völdum malaríusýkingar. Samkvæmt tilkynningu PhRMA eru sex lyf og fimm bóluefni gegn malaríu í þróun.

Vísindamenn vinna einnig hörðum höndum að því að koma í veg fyrir, meðhöndla eða lækna aðra hrikalega sjúkdóma sem valda mestum usla í þróunarríkjunum, svo sem Ebóla vírusinn, beinbrunasótt, gulu, taugaveiki og kóleru.

Svokallaðar ofurbakteríur, sem hafa þróað með sér ónæmi fyrir vissum sýklalyfjum, krefjast líka sífellt meiri athygli. Um tvær milljónir sýkinga sem sýklalyf vinna ekki á, eru tilkynntar í Bandaríkjunum á ári hverju. Bara þessar sýkingar kosta þarlent heilbrigðiskerfi allt að 34 milljarða dollara á ári.

Aðeins um tvö prósent sýkinga af völdum klasakokka í Bandaríkjunum voru ónæmar fyrir sýklalyfjum árið 1974 en sú tala var komin í um 64% árið 2004. Samkvæmt tölum frá Bandaríska sóttvarnaeftirlitinu (Center for Disease control and Prevention) látast fleiri af völdum klasakokka á ári hverju í landinu heldur en af völdum AIDS.

Þegar klasakokkasýking berst í blóðrásina, getur hún valdið blóðeitrun. Tilfellum af blóðeitrun hefur fjölgað um 91,3% undanfarinn áratug, og er áætlað að 215 þúsund manns látist af hennar völdum í Bandaríkjunum í ár. Nú eru átján lyf og bóluefni gegn blóðeitrun og klasakokkasýkingum í þróun samkvæmt skýrslu PhRMA.

Langt og kostnaðarsamt ferli
Þróun lyfs eða bóluefnis, frá rannsóknastofunni til lyfjaprófanna til samþykkis frá lyfjaeftirlitinu, tekur að jafnaði 10-15 ár og kostar 1,3 milljarð dollara.

Einkaleyfið tekur gildi um leið og lyfjaprófanir hefjast og þar sem þær geta tekið mörg ár, dregst sá tími frá þeim 15 árum sem einkaleyfið gildir. Aðeins eitt af hverjum fimm lyfjum sem eru sett á markað skila tekjum sem eru jafnháar eða hærri en sem nemur kostnaði við rannsóknir og þróun áður en einkaleyfi rennur út.

Hér má sjá skýrslu PhRMA á vefnum.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.