Hreyfing er komin á nýskráningu lyfja

07.07.2017

Fram kemur á vef lyfjagreiðslunefndar að í júní hafi verið skráð sex ný lyf. Fyrri hluta mánaðarins voru skráð, tvö krabbameinslyf og eitt til meðferðar við lifrarbólgu C og undir lok mánaðarins tvö ný lyf við lungnakrabba og eitt við mergæxlum.

„Fagnaðarefni er að hreyfing sé komin á nýskráningu lyfja og vinnulag fundið eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um viðbótarfjármagn í byrjun árs, en þá var ljóst að eins og fyrri ár skorti á fjárveitingu til málaflokksins,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda.

Í lok apríl var haft eftir Óttarri Proppé, ráðherra heilbrigðismála, [HÉR] að á næstu dögum væri að vænta ákvarðana lyfjagreiðslunefndar vegna innleiðingar á nýjum lyfjum, en í febrúar samþykkti ríkisstjórnin að til málaflokksins yrði varið á öðrum milljarði króna á árinu.

Ítrekað hefur verið fjallað um hvernig Ísland er eftirbátur nágrannalanda sinna þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja og í fjölmiðlum verið fjallað um óánægju jafnt lækna sem sjúklinga og aðstandenda þeirra með að aðgengi að ákveðnum lyfjum sé ekki til staðar hér á landi, meðan sömu lyf séu notuð með góðum árangri í nágrannalöndunum.

„Áætlanir ríkisins gera ráð fyrir auknum fjármunum vegna nýrra lyfja á næstu árum og er það vel, því einungis þannig getum við unnið okkur út úr því að vera eftirbátur þeirra þjóða sem við höfum viljað bera okkur saman við," segir Jakob Falur.

Frá því var greint á vef Frumtaka í byrjun árs að Norðmenn hafi innleit þrefalt fleiri ný krabbameinslyf en Íslendingar [sjá HÉR] þegar horft var til tímabilsins frá 2013 og fram í fyrsta ársfjórðung 2016. Þá lá fyrir að sama staða væri uppi og verið hefur síðustu ár að ekki væru í fjárlögum ríkisins heimildir til innleiðingar nýrra lyfja sem heilbrigðiskerfið hefur kallað eftir. Í kjölfarið lýsti ríkisstjórnin vilja sínum til að bæta við fjárheimildir þessa árs.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.