Hvorki virðist von á nýjum meðferðarúrræðum né nýjum lyfjum

12.09.2014

Samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem nú er til meðferðar á Alþingi, sér þess ekki stað að fjárfest verði í nýjum meðferðarúrræðum eða nýjum lyfjum sem í mörgum tilvikum eru þegar komin í notkun í nágrannalöndunum.

Í þeim áætlunum sem stjórnvöld hafa gert í ríkisfjármálum allt frá efnahagshruninu 2008 hefur verið gert ráð fyrir takmörkuðum raunvexti í málaflokkum ráðuneyta. Hefur raunvöxturinn þannig takmarkast við lýðfræðilegan vöxt í elli- og örorkulífeyri og raunvöxt í lyfjakostnaði og lækniskostnaði. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 hafa verið gerðar lítils háttar breytingar á þessum forsendum og raunvöxtur meðal annars aukinn í heilbrigðismálum og í háskólum.

Áframhaldandi aukin greiðsluþátttaka sjúklinga

Engu að síður gerir fjárlagafrumvarpið fyrir 2015 ráð fyrir áframhaldandi aukinni kostnaðarhlutdeild sjúklinga vegna lyfjakaupa og verði tillögurnar samþykktar verða S-merkt lyf, svokölluð sjúkrahúslyf og leyfisskyld lyf, sem eru mjög dýr lyf, í fyrsta sinn felld undir greiðsluþátttökukerfi almennra lyfja þegar lyfin eru gefin utan sjúkrahúsa. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að breytingin styðji upphaflegt markmið nýja greiðsluþátttökukerfisins um að mismuna ekki sjúklingum í kostnaði eftir sjúkdómum og tegundum lyfja. Tekið skal fram greiðsluþátttaka vegna S-merktra lyfja mun einungis ná til notkunar utan sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, en ekki meðan á innlögn á sjúkrahúsi stendur.

Hætta á misskiptingu

Í krónum talið gerir frumvarpið ráð fyrir 2,7% lækkun á ríkisúrgjöldum vegna kaupa á almennnu lyfjum og 1,7% lækkun á sjúkrahúslyfjum. Það mun samkvæmt frumvarpinu spara ríkissjóði 345 milljónir sem færast yfir til sjúklinga. Breytingatillögurnar eru í samræmi við aðgerðir ríkisstjórnarinnar um aðhald í ríkisrekstri, en að sögn Hennýar Hinz, hagfræðings ASÍ er það verulegt áhyggjuefni ef áframhaldandi aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði verður til þess að efnahagur fólks fari að ráða því hvort það geti sótt sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og lyf. Þá segir Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, að greiðsluþátttaka krabbameinssjúkra sé nú þegar of mikil og því hefði hún frekar átt von á því að sjúklingum yrði hlíft í fjárlagafrumvarpinu. Hún segir dæmi þess að sjúklingar í krabbameinsmeðferð greiði hátt á aðra milljón fyrir meðferð og tengd útgjöld.

Styrking krónunnar lækkar fjárheimildir

Í forsendum fjárlagafrumvarpa hefur ekki tíðkast að spá fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla heldur hefur vanalega verið miðað við gengi þeirra við lokun fjárlagafrumvarpsins. Gengisforsendur frumvarpsins 2015 miðast við meðalgengi júnímánaðar 2014. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins hefur gengi íslensku krónunnar styrkst nokkuð og er gengisvísitalan 2,9% lægri en í forsendum fjárlaga 2014. Þessar breytingar á gengi gjaldmiðla leiða samtals til tæplega 0,7 mia.kr. lækkunar á fjárheimildum fjárlagaliða í frumvarpinu í þeim tilvikum þar sem útgjöld eru greidd eða beintengd við gjaldmiðla en það á t.d. við lyfjakostnað sjúkratrygginga. Gert er ráð fyrir 1% aukningu í lækniskostnaði og almennum lyfjum og 3% í S-merktum lyfjum frá fjárlögum 2014.

Ísland að verða eftirbátur

Í fréttum undanfarið hefur kostnaður krabbameinssjúkra hér á landi verið borinn saman við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Í fréttum Stöðvar 2 þann 10. september kom t.d. fram að í Englandi, Frakklandi og Þýskalandi greiða sjúklingar hvorki fyrir krabbameinsmeðferðir né krabbameinslyf, með þeirri undantekningu að í Þýskalandi greiða sjúklingar sérstaklega fyrir eins manns stofu á sjúkrahúsi. Í Noregi og Svíþjóð er kostnaðarþátttaka krabbameinssjúkra engin, ekki heldur vegna sjúkraþjálfunar eða heimahjúkrunar. Í Danmörku greiða sjúklingar hvorki fyrir læknisheimsóknir né meðferð á sjúkrahúsi, og vegna lyfjakaupa greiða Danir að hámarki tæpar 17 þúsund íslenskar krónur á ári og geta þeir sótt um styrk á móti. Það er því alvg ljóst að Ísland sker sig orðið verulega úr í samanburði við öll helstu nágrannalöndin þegar litið er á þjónustu velferðarkerfis landanna við sjúka. Það á t.d. bæði við um kostnaðarþátttöku sjúklinga hér á landi í lyfjakaupum og aðgengi að nýjum lyfjum, sem þegar hafa verið tekin í notkun annars staðar.

Nánari upplýsingar

 

Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, kynnir fjárlagafrumvarpið 2015. Mynd: mbl.is/Árni Sæberg.

 

763646

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.