Í átt til aukins gagnsæis

30.06.2017

Líkt og fyrir ári síðan hafa nú verið birtar á vef Frumtaka fjárhagsupplýsingar um samskipti lyfjafyrirtækja við heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir. Opinber upplýsingagjöf með þessum hætti var hafin á síðasta ári, í samræmi við siðareglur EFPIA, Evrópusamtaka lyfjaframleiðenda, sem tóku gildi árið 2015.

„Um er að ræða viðleitni til að auka gagnsæi og draga úr tortryggni. Samskipti lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsfólks eru mjög mikilvæg og eðli málsins samkvæmt þarf að kynna ný lyf og þær framfarir sem á hverjum tíma verða með þróun lyfja og áföngum sem nást í baráttunni við illvíga sjúkdóma. Í þessum efnum setja siðareglur EFPIA þann ramma sem við störfum eftir og þessi birting er mikilvægur hluti þeirra. Þar er umgjörð um náms- og ráðstefnuferðir meðal annars gerð skýr og gagnsæ, svo tryggja megi áframhaldandi og nauðsynleg samskipti lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsfólks, einkum lækna,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Núna birta fyrirtækin fjárhagsupplýsingar um samskipti sín við einstaklinga og stofnanir í heilbrigðisgeiranum hér á landi á síðasta ári, þ.e. á árinu 2016, en jafnfram er gerð grein fyrir verkefnum sem tengjast klínískum lyfjarannsóknum sem unnar eru hér á landi. Aðrar greiðslur sem gerð er grein fyrir eru t.d. framlög og styrkir til heilbrigðisstofnana, kostnaður vegna ferða og skráningargjalda á ráðstefnur til símenntunar heilbrigðisstarfsfólks, auk þóknunar fyrir fræðslu, fyrirlestra og sérfræðiráðgjöf.

Birting upplýsinganna er sameiginlegt verkefni frumlyfjaframleiðenda í Evrópu.

Skýrslurnar er að finna hér:

http://www.frumtok.is/sidareglur/birting-upplysinga-2016

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.