Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor skrifar um heilsufullyrðingar á umbúðum í Morgunblaðið

20.10.2010

Eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur: "Fjöldinn allur af heilsufullyrðingum á umbúðum og í kynningu matvara hellist yfir þjóðina, fullyrðingar sem eru samkvæmt reglugerð óleyfilegar."

Nú hægt að fá sérstakan engiferdrykk á Íslandi sem virkar vel á ýmsa kvilla hjá fólki og má þar helst nefna gigt, astma, mígreni, tíðaverki, flensu og hálsbólgu, sykurfíkn, bólgur, sogæðakerfið og ýmis húðvandamál. Þar að auki eykur drykkurinn brennslu samkvæmt auglýsingu. Nýlega var einnig opnuð ný ísbúð þar sem hægt er að fá jógúrtís sem getur lækkað kólesteról, styrkt ónæmiskerfið og stuðlað að heilbrigðum meltingarvegi. Í annarri ísbúð á höfuðborgarsvæðinu má einnig finna mjólkurhristing sem er góður fyrir sjónina. Allt eru þetta heilsufullyrðingar sem ekki eiga við rök að styðjast og eru þar að auki óleyfilegar. Af hverju er þetta látið viðgangast?

Allt þar til í apríl á þessu ári voru hvers kyns heilsufullyrðingar á umbúðum, í auglýsingum eða kynningu matvara óleyfilegar nema framleiðendur hefðu fengið til þess sérstakt leyfi Matvælastofnunar (áður Umhverfisstofnunar). Ný reglugerð sem fjallar um heilsufullyrðingar tók gildi á Íslandi 28. apríl síðastliðinn þar sem heilsufullyrðingar á umbúðum, í auglýsingum og kynningu matvara eru leyfðar að því gefnu að þær séu studdar vísindalegum rannsóknum sem sýni fram á þá virkni sem fullyrt er um. Eins verða allar heilsufullyrðingar að vera á sérstökum lista Evrópusambandsins yfir leyfðar fullyrðingar. Þori ég að fullyrða að ofangreindar heilsufullyrðingar eru ekki á lista sambandsins. Hver ætlar að stöðva þessa vitleysu? Hvað er búið að selja mikið af þessum engiferdrykk á fölskum forsendum og hvert eiga menn að leita ef kólesterólið lækkar ekki þrátt fyrir að borðaður sé jógúrtís?

Heilbrigðiseftirlitið á að sinna eftirliti með merkingum matvæla og þar með heilsufullyrðingum á umbúðum matvæla sem og auglýsingu og kynningu á matvörum. Eftirlitið vinnur í umboði Matvælastofnunar. Undirrituð sendi fyrir viku tölvupóst til Matvælastofnunar og óskaði eftir svörum við því hver bæri ábyrgð á því að reglugerð um heilsufullyrðingar yrði framfylgt en fátt varð um svör. Búið er að leggja í kostnað vegna þýðingar Evrópureglugerðarinnar og ef við, neytendur, eigum ekki að njóta góðs af því sem þar er sett fram þá finnst mér peningunum illa varið. Hvar er eftirlitið? Kæru framleiðendur og innflytjendur matvæla. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur vel reglugerðir um heilsufullyrðingar á umbúðum, í kynningu og auglýsingu matvæla. Þó er ég hrædd um að eina hvötin þurfi að vera sú að þið berið virðingu fyrir okkur neytendum, því litlar líkur verða að teljast á því að þið fáið eitthvert aðhald frá eftirlitsaðilum landsins.

Höfundur er prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.