Ísland, nei takk

22.11.2010
Frumtök taka undir með Félagi atvinnurekenda sem lýsir yfir furðu sinni á frumvarpi fjármálaráðherra um að ríkinu verði heimilað að semja beint við innkaupastofnanir erlendis um innkaup á rekstrarvörum. Þar með ætlar ríkisvaldið að bregða sér í hlutverk heildsala og smásala, í staðinn fyrir að eiga viðskipti við verslunarfyrirtæki hér á landi. Viðbúið er að hundruð manna missi vinnuna ef þessar áætlanir ganga eftir.
 
Tilgangur frumvarpsins er sagður að spara í innkaupum fyrir ríkisstofnanir. Einblínt er á möguleika þess að ganga inn í útboð erlendra innkaupastofnana á mörkuðum fyrir milljónir manna erlendis. Fullyrt er að enginn kostnaður fylgi þessum ríkisinnkaupum erlendis, alveg eins og vörurnar sjái sjálfar um að koma sér til landsins, staðsetja sig á lager og dreifa sér til notenda.
Þetta frumvarp er fullkomlega vanhugsað. Jafnvel þótt ríkið geti keypt vörur og þjónustu erlendis á „heildsöluverði“ er sagan ekki nema hálfsögð. Reikna þarf með kostnaði við flutninga, utanumhald, lagerhald, dreifingu, rýrnun, viðgerðarþjónustu, öryggismál, bókhald og annað það sem fylgir innflutningi og dreifingu.
Hér á landi annast fjöldi fyrirtækja innflutning og sölu til opinberra stofnana í harðri samkeppni. Þúsundir manna starfa hjá þessum fyrirtækjum. Skilaboð frumvarpsins eru að þekking og þjónusta þessa fólks skipti ekki máli; að ríkið geti tekið þetta að sér án nokkurs kostnaðar með því að færa störfin til útlanda.

Skilaboðin eru: Ísland, nei takk.

Fram kemur í frumvarpinu að ekki hafi verið gerð úttekt á því hvort þessi innkaup geti yfirleitt skilað einhverjum sparnaði eða dregið úr útgjöldum ríkisins. Höfundar frumvarpsins eru semsagt ekki einu sinni vissir um sparnað þótt þeir hafi gefið sér ranglega að enginn kostnaður fylgi umstanginu við að kaupa og dreifa aðföngum til ríkisrekstrarins. Til hvers er þá farið af stað?

Með þessum fyrirætlunum er þar að auki freklega gengið á rétt íslenskra fyrirtækja sem vildu keppa um viðskiptin. Þau þyrftu að bjóða í viðskipti um alla Evrópu en ekki aðeins í íslenska hlutann. En hendur margra íslenskra innflutningsfyrirtækja eru bundnar, því þeim er yfirleitt aðeins heimilt að þjóna íslenska markaðnum. Erlend fyrirtæki eiga að hafa meiri rétt til að bjóða íslenska ríkinu vörur til sölu heldur en innlend fyrirtæki.

Frumvarp þetta er mikil tímaskekkja. Það gengur út á stofnuð verði eins konar heildsölu- og smásöluverslun ríkisins og að störf verði flutt til útlanda. Afleiðingin yrði atvinnumissir hjá reyndu og vel menntuðu starfsfólki í verslun og viðskiptum. Samt liggur ekkert fyrir um að ríkið spari eina einustu krónu.

Í frumvarpinu er eingöngu horft á að ríkið geti hugsanlega fengið lægra innkaupsverð með þátttöku í útboðum erlendis. Ekkert er spáð í þjóðhagsleg áhrif á borð við töpuð störf í einkageiranum og tapaðar skatttekjur. En til að íslenska ríkið geti tryggt að um sé að ræða hagkvæmustu leið verður að taka alla kostnaðarliði með í reikninginn - ekki bara vörukaupin sjálf.
Félag atvinnurekenda hvetur fjármálaráðherra til að draga frumvarp þetta snarlega til baka.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.