Kólesteróllækkandi lyf með matnum?

20.08.2010
Á vefsíðu breska dagblaðsins The Guardian er að finna áhugaverða frétt um að læknar telji að skyndibitastaðir ættu að bjóða kólesteróllækkandi lyf með mat til að draga úr líkum á hjartasjúkdómum.

Það voru hjartalæknar við Imperial College London sem lýstu því yfir í síðustu viku að ef skyndibitastaðir tækju upp á því að bjóða kólesteróllækkandi lyf með skyndibitanum væri hægt að vinna á móti óheilsusamlegum áhrifum skyndibitans og þannig draga úr líkum á hjartasjúkdómum.

Í greininni kemur fram að sjá mætti fyrir sér að skyndibitastaðir byðu upp á kólesteróllækkandi lyf, eða svokölluð statin-lyf, við hlið tómatsósunnar, saltsins og piparsins. Gestir skyndibitastaðarins gætu því gripið í eina pillu um leið og ostborgaranum er skolað niður með mjólkurhristingnum.

Í American Journal of Cardiology hefur þetta verið gefið í skyn en þar skrifaði Dr. Darrel Francis að vissulega væri best að sneiða hjá óhollum eða feitum mat en það væri samt hans mat að það gæti verið til góðs að bjóða upp á þennan kost fyrir þá sem á annað borð láta ekki segjast og sækja í óhollan feitan mat.

Læknar hafa tekið þessum hugmyndum misjafnlega og bent á að viss hætta sé á því að fólk stundi óheilsusamlegra líferni ef það viti að hægt sé að taka lyf sem sporni við neikvæðum áhrifum lifnaðarins.

Dr. Darrel Francis kemur hinsvegar með þau mótrök að fólk borði skyndibitamat jafnvel þó það viti að hann sé óhollur. Af þessum sökum megi líkja því að bjóða kólesteróllækkandi lyf við ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miði að því að draga úr heilsutjóni sem fylgi ákveðnum lífstíl. Hann bendir ennfremur á að kostnaðurinn við að bjóða lyfið á skyndibitastöðum myndi nema því sem lítið tómatsósubréf kostar.

Kólesteróllækkandi lyf geta eins og mörg önnur lyf haft aukaverkanir en eru þó milljónum Breta lífsnauðsynleg í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.