Lægsta lyfjaverð á Norðurlöndunum á Íslandi

29.11.2012

1131300_graph_line_up_and_down_64Í Fréttablaðinu í gær mátti finna frétt þar sem vitnað er í Hreggvið Jónsson, formann Viðskiptaráðs og forstjóra Veritas Capital hf. Þar kemur fram að á aðeins tíu árum hafi lyfjaverð á Íslandi farið úr því að vera það hæsta á Norðurlöndunum í það að vera hið lægsta.

Lyfjastofnun ákvarðar verð á lyfjum á Íslandi og hafa lyfjafyrirtækin unnið með stjórnvöldum í því að bjóða verð á lyfjum sem verður að teljast afar gott miðað við það umhverfi sem lyfjafyrirtækjum á Íslandi er búið.

Að sögn Hreggviðs eru hinsvegar blikur á lofti þar sem nokkrar vísbendingar má finna um að gengið hafi verið of langt þar sem upplýsingar liggja fyrir um að lítill áhugi sé á því að nýskrá lyf á Íslandi.

Ekki er ýkja langt síðan nokkur umfjöllun varð um geðlyfið Trifalon þegar það var tekið af markaði. Eðlilega var að því staðið, líkt og Lyfjastofnun staðfesti. En í ljósi þess að Ísland er örmarkaður fyrir lyf segir Hreggviður meira um það í dag að markaðsaðstæður séu það óhagstæðar að það borgi sig hreinlega ekki að bjóða einstök lyf á Íslandi.

Nýverið hélt Lyfjastofnun fund með ýmsum hagsmunaaðilum, þar á meðal Frumtökum, þar sem fulltrúar Lyfjastofnunar fóru stuttlega yfir hið evrópska regluverk sem gildir hérlendis um markaðsleyfi lyfja. Lyfjastofnun fór jafnframt yfir aðgerðir sem stofnunin beitir nú þegar til að stuðla að framboði lyfja. F.h. Frumtaka var á fundinum farið yfir ýmis atriði frá sjónarhjóli lyfjafyrirtækja.

Samkvæmt nýopnuðu mælaborði Frumtaka, þar sem sjá má fjölda lykiltalna úr íslenskum lyfjageira í skýrri framsetningu, er ljóst að of snemmt er að segja til um hvort nýskráningum hafi fækkað. Afskráningum hefur hinsvegar fjölgað frá árinu 2009 ef litið er á 2010 og 2011 til samanburðar.

Af hverju er lyf afskráð og hver er hinn raunverulegi vandi
Það verður hinsvegar ekki hjá því komist að horfast í augu við að málefnalegar ástæður geta legið að baki afskráningu á lyfi. Oft er sala lyfja svo lítil að markaðsleyfishafi getur lítið annað gert en að afskrá lyfið. Við þær aðstæður leitar Lyfjastofnun annarra lausna en almennt er gert ráð fyrir að samheitalyf leysi frumlyf af hólmi við þessar aðstæður, enda eiga samheitalyf að vera mun ódýrari eftir að einkaleyfi frumframleiðanda rennur út.

Einnig kemur fyrir að framleiðslu lyfja er hætt á heimsvísu eins og var tilfellið með Trifalon. Lyfjastofnun óskar eftir því að í slíkum tilfellum sé látið vita um að framleiðslu verði hætt með að minnsta kosti þriggja mánaða fyrirvara.

Lyf geta einnig fallið af lyfjaskrá af öryggisástæðum en þá tilkynna lyfjafyrirtækin eða læknar um ástæður þess.

Helsti vandinn liggur hinsvegar ekki í því að nauðsynlegt geti reynst að afskrá sölulítil lyf á Íslandi heldur liggur vandinn í aðgengi að lyfjum á Íslandi sem virðist fara minnkandi.

Þannig er það áhyggjuefni að minni áhugi sé á nýskráningum en áður. Frumtök hafa hvatt til þess að sjúklingum sé tryggt aðgengi að bestu fáanlegum lyfjum hverju sinni. Þetta felur í sér að á Íslandi þarf skilvirkt kerfi sem ýtir undir ódýr samheitalyf svo hægt sé að markaðssetja ný frumlyf. Hér þarf að horfa til heildarkostnaðar í heilbrigðiskerfinu og styðjast við heilsuhagfræði. Lægra verð á samheitalyfjum er grundvöllur þess að hægt sé að skrá ný frumlyf.

Til að þessu sé hægt að ná fram þarf einnig að tryggja sátt um greiðsluþátttökukerfi landsins til lengri tíma.

Nú þegar kosningavetur liggur fyrir þjóðinni er nauðsynlegt að huga að þessum málum því það er hagur allra landsmanna að aðgangur að lyfjum sé góður. Lyf skipta okkur öll nefnilega máli.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.