Læknadagar og líflegt málþing að baki

20.01.2017

Í dag lýkur formlegri dagskrá Læknadaga sem staðið hafa í Hörpu alla vikuna. Frumtök hafa í Hörpu staðið fyrir kynningu á starfsemi sinni, auk umgjarðar og þróunar lyfjamála hér á landi.

Hluti af þeirri kynningu er samantekt á tölulegum staðreyndum tengdum lyfjamálum og umfangi málaflokksins í opinberum útgjöldum. Þá samantekt má nálgast hér.

Þá stóðu Frumtök á miðvikudag fyrir málþingi í salnum Kaldalóni í Hörpu undir yfirskriftinni: Læknisfræðilegir gagnagrunnar, framkvæmd og gagnsemi.

Fyrsti frummælandi var Hrafnhildur Soffía Guðbjörnsdóttir, prófessor og forstjóri National Diabetes Register í Svíþjóð, sem rammaði inn reynsluna þar í landi af miðlægri skráningu vegna sykursýki. Yfirskrift erindis hennar var: Gæðaskráning á Landsvísu, jafnræði og þekkingarauki til framtíðar.

Magnús Gottfreðsson, prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum, fjallaði um InfCare og þátttöku Íslands í samnorrænni skráningu á HIV og þá hélt Björn Guðbjörnsson, prófessor og sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum, erindi undir yfirskriftinni: ICEBIO gagnsemi og hindranir.

Að framsögum loknum fóru fram pallborðsumræður þar sem jafnframt var svarað spurningum gesta úr sal. Auk frummælenda á málþinginu voru í pallborði María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum og Torfi Magnússon, taugalæknir sem jafnframt starfar á skrifstofu forstjóra Landspítalans.

Góður rómur var gerður að málþinginu, jafnt efni þess og umræðum, sem og kleinum og kaffi sem gestum stóðu til boða. Fundarstjóri á málþinginu var Björn Guðbjörnsson.

Hér að neðan má sjá Hrafnhildi Soffíu Guðbjörnsdóttur flytja erindi sitt í Kaldalóni í Hörpu, en svo vill til að hún er systir Björns Guðbjörnssonar fundarstjóra, líkt og hann benti gestum málþingsins á við upphaf þess.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.