Læknafélag Íslands, Frumtök, Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu semja um siðareglur

23.01.2013

Læknafélag Íslands, Frumtök, Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu frumtok_undirskrift_23012013_1_webundirrituðu í dag, 23. janúar, samning, fyrir hönd félagsmanna sinna og aðildarfyrirtækja, um samskipti milli lækna, lyfjafyrirtækja og fyrirtækja sem flytja inn lyf.

Samningurinn var undirritaður á Læknadögum í Hörpunni fyrr í dag. Samningurinn formfestir samskipti lækna og lyfjafyrirtækja með það fyrir augum að báðir aðilar njóti faglegs sjálfstæðis svo hægt verði að bæta meðferð við sjúkdómum, líkt og samningsaðilar hafa að markmiði fyrir hönd umbjóðenda sinna.

Með samningnum er staðfest að leggja til grundvallar samskipta lækna og lyfjafyrirtækja þær siðareglur sem lyfjafyrirtæki í röðum Frumtaka hafa starfað eftir undanfarin ár.

Hag sjúklinga best borgið með formlegum samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja
Samningurinn er grundvallaður á siðareglum EFPIA um samskipti við fagfólk í heilbrigðisstétt og kynningu lyfseðilsskyldra lyfja og „List of Guiding Principles Promoting Good Governance in the Pharmaceutical Sector“ en það eru reglur sem hafa verið samþykktar af lyfjaiðnaðinum, félögum heilbrigðisstétta, sjúklingafélögum innan ESB og EFPIA, Evrópusamtaka samtaka frumlyfjaframleiðenda. Með reglunum er meðal annars er kveðið á um framlög og styrki til heilbrigðisþjónustu eða rannsókna, þóknanir fyrir þjónustu, kostun og gjafir til fagfólks í heilbrigðistétt og hins vegar siðareglur Læknafélags Íslands.

Með samningnum eru meðal annars reglur um námsferðir festar í sessi svo tryggja megi áframhaldandi og nauðsynleg samskipti lyfjafyrirtækja og lækna. Sem dæmi má nefna að öll fræðsla sem miðar að kynningu á nýjum lyfjum, og meðferð þeirra, skal vera samkvæmt fyrirfram skipulagðri dagskrá. Kynningar skulu vera hlutlægar, nákvæmar og sannar og í samræmi við lög og siðareglur. Ennfremur skuli veitingum á lyfjakynningum, ef einhverjar eru, vera stillt í hóf.

Samningurinn er í sjö greinum sem taka á markmiðum samningsins, fræðslu og kynningum, styrkjum, rannsóknarsamstarfi, ráðgjafastörfum og upplýsingagjöf, óheimilum þóknunum og loks gildistöku og uppsögn.

Í samningnum, og nánar í siðareglunum, er til að mynda ákvæði um styrki til lækna til að sækja fræðslufundi sem ekki eru kostaðir að fullu samkvæmt kjarasamningi. Skýrt er kveðið á um að óheimilt er að greiða lækni ferðakostnað maka. Tiltaka skal sérstaklega í upphafi atburðar að lyfjafyrirtæki styrki  atburðinn, t.d. ef um er að ræða styrktan fund, námskeið eða málþing, sem haldin eru á vegum lækna eða með þátttöku þeirra.

Þá er í samningnum einnig kveðið á um hvernig rannsóknarsamstarfi um lyfjarannsóknir skuli háttað en þar eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska heilbrigðiskerfið, og raunar samfélagið allt. Læknum verður ennfremur heimilt að taka að sér ráðgjafarstörf með skriflegum samningi við lyfjafyrirtæki að því tilskyldu að starfa þeirra í þágu lyfjafyrirtækjanna verði getið.

Þá verður eftir sem áður með öllu óheimilt að bjóða læknum fé eða gjafir fyrir lyfjakynningu og mega þeir ennfremur ekki fara fram á slíkt.

Samningurinn var undirritaður sem áður segir á Læknadögum í Hörpu, 23. janúar, af fulltrúum Læknafélags Íslands, Frumtaka, Félags atvinnurekenda og Samtaka verslunar og þjónustu.

frumtok_undirskrift_23012013_1_web

Frá vinstri til hægri eru Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, Jakob Falur Garðarsson framkvæmdastjóri Frumtaka, Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands og Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

 

Samningurinn, siðareglurnar og íslenskur viðauki við þær

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.